149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:56]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að halda mig aðeins áfram við þau nýju tíðindi sem birtust í Sunday Times í gær þar sem fjallað er um þennan fjárfesti, sem af frásögninni að dæma virðist vera grjótharður kaupsýslumaður, hefur efnast m.a. á því að kaupa upp lífeyrisréttindi, og velta því fyrir mér og spyrja hv. þingmann, í ljósi þess að sá aðili virðist vera í þeirri stöðu að beita bresk stjórnvöld þrýstingi: Eru einhverjar líkur á því að slíkur aðili — og nú er ég ekki að setja út á að menn séu harðir í viðskiptum, auðvitað mega þeir vera það svo framarlega sem þeir fylgja reglum — myndi ekki nýta þau verkfæri sem ríkisstjórn Íslands virðist vera að færa honum upp í hendur með þriðja orkupakkanum? Myndi ekki, ef hann mætti hér einhverjum hindrunum, vísa í þessa innleiðingu og markmið hennar um að tengja saman raforkukerfi Evrópu með sérstakri áherslu á einangruð svæði eins og eyjar, með sérstakri áherslu á umhverfisvæna orku?

Mér finnst það blasa við að slíkur aðili myndi nýta það til hins ýtrasta. En þeim mun undarlegra er að íslensk stjórnvöld skuli þá ekki varast slíka innleiðingu, ekki einu sinni vera reiðubúin til að skoða áhrifin áður en þau ætla að kalla þinglið sitt hingað í salinn til að láta það ýta á græna takkann.

Er hv. þingmaður sammála mér um þetta mat, að það sé svo að segja fyrirsjáanlegt hvernig þetta dæmi myndi þróast eftir innleiðingu þriðja pakkans?