149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Þetta er nefnilega áhugavert í þessu samhengi öllu saman, ef maður skoðar heildarsamhengið, að ekki var það Evrópusambandið, franska ríkið eða einhver slíkur sem vildi flytja inn kjöt til Íslands, heldur voru það íslenskir heildsalar sem fóru í þann leiðangur og unnu það mál illu heilli.

Það sem við erum hins vegar að gera varðandi orkumálin er að við erum að innleiða markmiðin, hugmyndafræðina, við erum að innleiða stefnuna, innleiða reglurnar. Við erum í rauninni að taka stóra skrefið sem ýtir að mínu viti og býr til grunn eða getur búið til grunn fyrir málshöfðun á hendur Íslandi verði þetta ekki uppfyllt eins og ætlast er til, við skulum segja af lögaðilum og einkaaðilum. Segjum að yfirlýsingar fulltrúa Evrópusambandsins og annarra ríkja sem koma að þessu hafi eitthvert gildi, ég held að það hafi fyrst og fremst pólitískt gildi, ekki lagalegt gildi, þá er alveg ljóst að samanburðurinn í tölum komi til sekta eða einhvers konar bótagreiðslna — ég leyfi mér að segja að hann sé stjarnfræðilegur. Ég leyfi mér að segja að hann sé slíkur að vart er hægt að hugsa til þess hvernig það myndi enda. Hagsmunirnir sem eru undir eru slíkir og verðmætið sem eru undir er slíkt.

Þar af leiðandi, forseti, er í sjálfu sér ekki annað í stöðunni en að skoða þetta mál enn betur út frá stóra samhenginu, út frá stóru áhættunni sem við erum að taka og ekki síst með það á borðinu að nýr orkupakki er klár og tilbúinn.

Segjast verður eins og er að það er sorglegt að heyra ekki eða fá ekki vitneskju um það hvort þeir sem eru fylgjandi málinu hafi einhverjar áhyggjur af orkupakka fjögur eða ekki.