149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það voru nokkur atriði sem komu upp í hugann þegar ég hlustaði á hv. þingmann. Tilfinningin sem kannski fyrst og fremst kom upp var sú að sporin hræða í samskiptum þjóða, sérstaklega smærri þjóða við Evrópusambandið og regluverkið þar. Núna horfum við fram á málið sem snýr að ófrosna kjötinu eins og þekkt er þar sem íslenskir stjórnmála- og embættismenn töldu sig hafa fyrirvara sem eitthvert hald væri í. Nú sjáum við hvernig það stendur: 3 milljarðar auk einhverra smáupphæða í skaðabætur á fyrri stigum ef ég man rétt. Það hafa þegar verið dæmdar skaðabætur ef mér skjátlast ekki upp á 3 milljarða út af kjötinnflutningi. Það má reikna með því að mál sem snýr að svona gríðarlegum hagsmunum eins og eru á orkumarkaðnum gæti leitt til upphæða sem við höfum bara ekki kynnst áður í þessum efnum nema þá í margumtöluðu Icesave-máli mögulega.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson hvort hann deili þeirri skoðun og upplifun með mér að það sem kannski er erfiðast að ýta til hliðar sé tilfinningin um að sporin hræði í samskiptum smærri ríki við Evrópusambandið og að meginmarkmið Evrópusambandsins, til að mynda í orkumarkaðsmálum núna, séu líkleg til að trompa sjónarmið okkar Íslendinga.