149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þessar vangaveltur og þetta andsvar. Ég verð að segja það, forseti, að mér finnst það mjög merkilegt að fólk skuli mæta þessu máli svona og þeim spurningum sem við höfum sett fram — ég nefndi áðan að ég væri með 17, 18 spurningar sem kviknuðu í framhaldi af gærdeginum og því sem kom frá Evrópusambandinu í síðustu viku — og leitast ekki við að svara þeim áður en lengra er haldið. Eins og ég sagði áðan í fyrra andsvari við annan þingmann þá erum við að innleiða hugmyndafræðina, við erum að innleiða markmiðin og í raun þá stefnu sem Evrópusambandið hefur unnið að í mörg ár og ætlar að vinna áfram að innleiða.

Við vitum það líka að þegar við erum búin að taka þetta skref verður ekki snúið aftur svo auðveldlega. Það verður erfitt að koma til Evrópusambandsins og segja: Fyrirgefið, en við gerðum smáskyssu með orkupakka þrjú, við verðum eiginlega að fara til baka, getum ekki tekið hann upp, við héldum að þetta væri öðruvísi, við túlkuðum málið með öðrum hætti. Það þýðir ekkert að segja það þegar eigendur og umboðsmenn Atlantic Superconnection strengsins eru farnir í málaferli við Ísland. Þá þýðir ekki að koma með þá afsökun.

Ég held þess vegna, forseti, að það sé mjög mikilvægt að fá botn í heildarmyndina eins og ég hef áður sagt. Það er alveg ljóst að ef heildarmyndin er jafn varasöm, ég ætla að leyfa mér að nota það orð, og ég held að hún sé er ábyrgðarhluti að halda áfram með málið eins og ekkert hafi í skorist. Það hafa komið fram nýjar upplýsingar. Það hafa komið fram nýjar gerðir og nýr orkupakki og þar af leiðandi er full ástæða fyrir þá sem eru fylgjandi málinu að segja: Stöldrum aðeins við.