149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það sem ég vildi aðeins koma inn á við hv. þingmann, ekki síst í ljósi þess að í salnum situr hv. formaður utanríkismálanefndar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, er að nýjar fréttir bárust í morgun um að breskur auðjöfur sem fer fyrir fyrirtækinu Atlantic Superconnection vill að bresk stjórnvöld gefi grænt ljós um umfangsmiklar framkvæmdir sem felast í því að gera Bretum kleift að sækja raforku til Íslands í gegnum sæstreng. Þetta er mjög athyglisverð frétt sem kemur akkúrat ofan í þessa umræðu sem sýnir að vel er fylgst með þessum hlutum erlendis frá, þ.e. umræðunni hér um þriðja orkupakkann og vonandi ekki síst málflutningi Miðflokksmanna í þeim efnum.

Mig langaði að spyrja hvort ekki megi álykta út frá þessu, ef það vantar aðeins samþykki breskra stjórnvalda, samkvæmt þessari frétt, að ríkisstjórnin sé í raun og veru þegar búin að samþykkja sæstreng eða þá að framkvæmdaraðilar, þ.e. fjárfestirinn, hafi látið greina þriðja orkupakkann þannig að þessir fyrirvarar muni ekki halda og verði úrskurðaðir ógildir af hálfu ACER. Það væri fróðlegt að fá álit hv. þingmanns á því.