149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Í þessu samhengi vil ég segja það sem ég sagði í andsvari við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson rétt áðan, að sporin hræða. Það er ekki mjög langt síðan, þó eru það samt tíu ár, 2009, að það var kosningabarátta í gangi þar sem fyrirsvarsmenn Vinstri grænna sögðu alveg fram á síðasta dag að ekki kæmi til greina að taka þátt í ríkisstjórn sem sækti um aðild að Evrópusambandinu. Daginn fyrir kosningar var sagt: Nei, nei, það kemur ekki til greina. Við munum ekki taka þátt í ríkisstjórn sem sækir um aðild að Evrópusambandinu. Þremur vikum seinna, ég held að ég muni þessa tímalengd rétt, var Össur búinn að senda bréf án aðkomu Alþingis þar sem ríkisstjórnin stóð á bak við það að óska eftir að hefja aðlögunarviðræður að Evrópusambandinu. Þrjár vikur.

Vangaveltur hv. þm. Birgis Þórarinssonar um að það verði lítið mál að fella þessi lög niður eru algjörlega réttmætar og augljósar í þessu samhengi. Miðað við það hvernig menn eru stemmdir í þingflokkum, öðrum en Miðflokknum, gagnvart þessu þriðjaorkupakkamáli og innleiðingu þess er alveg öruggt að það verður í hugum þingmanna mun minni ákvörðun að ryðja frá þeirri fyrirstöðu sem verður fyrir lagningu sæstrengs en var fyrir þingmenn Vinstri grænna á sínum tíma að styðja við aðlögunarferli að Evrópusambandinu.