149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Þessar tölur hljómar kunnuglega, enda sýnist manni úr fjarska að bakland þessara þriggja ríkisstjórnarflokka sé að megninu til tiltölulega þögult, annaðhvort þögult eða þá bara í þeirri stöðu að vera að tukta þingmenn sína harkalega til. Þeir stuðningsmenn þessara þriggja flokka sem stíga fram og verja ákvörðun þingflokkanna — ég ætla ekki að segja að þeir séu teljandi á fingrum annarrar handar fyrir hvern flokk en það er ekki stór hópur, hann er furðu nettur. Ég held að það sé skýringin að stórum hluta á því að, eins og hv. þingmaður segir, samfylkingarflokkarnir þrír, Píratar, Samfylkingin og Viðreisn, eru fylgjandi þessu.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur komið fram með skynsamlega nálgun varðandi það að fresta málinu fram á haust þó að ég telji líklegt að það sé með öðrum rökum en við setjum fram í málinu og mér sýnast viðbrögð hv. þingmanns sem er næstur á mælendaskrá benda til þess að það sé rétt mat hjá mér.

Þetta er ótrúlega skrýtið mál að fylgjast með hvað varðar það sem ég leyfi mér að kalla rof, sem virðist vera á milli þingflokka ríkisstjórnarflokkanna og kjarnafylgis hvers og eins þeirra. Ég er ekki öllum hnútum kunnugur í innvolsi flokkanna þriggja, en þau skilaboð sem berast og sá tónn sem virðist sleginn gagnvart hverjum þingflokki fyrir sig virðist vera þeirrar gerðar að ýmsir í þingflokkunum þremur eru nú ábyggilega órólegri en þeir gefa upp þessa stundina. (Forseti hringir.) Það er sennilega það sem orsakar það að menn keyra á það að klára málið til að þurfa ekki að takast á við það aftur.