149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég bara segja að þótt ég sé sjálfur þeirrar skoðunar að það beri að samþykkja þetta mál, með öðrum orðum að ég styðji framgang þess, ber ég fulla virðingu fyrir því að fólk á meðal almennings sé óttaslegið yfir þessu máli vegna þess að svo margt hefur verið sagt um það sem eðlilega ætti að vekja ótta ef fólk telur það trúverðugt. Sagan er orðin sú að þetta sé einhvers konar árás eða alla vega einhvers konar ágangur á sjálfstæði Íslands, afsal á auðlindum og þess háttar. Ekkert af því er rétt, ekki neitt og ekki á neinn hátt er það rétt, hvorki beint né óbeint, ekki þannig séð né algjörlega, bara ekki yfir höfuð. Það er einfaldlega ekki rétt, a.m.k. ekki samkvæmt öllu sem ég veit um málið, en ég held áfram að vera með eyrun opin og þótt mér hafi ekki tekist að fara yfir allar þær lærðu ræður sem hafa verið fluttar hér af hv. þingmönnum Miðflokksins hingað til skal ég samt sem áður glaður hlýða á ný rök og kynna mér ný gögn í málinu, hvaða leið sem það fer.

Þó vil ég líka segja að staðan í samfélaginu gagnvart þessu máli er að mínu mati sú að það sé heillavænlegast að bíða með afgreiðslu þess fram á haust. Þótt málið hafi fengið alveg ofboðslega mikla umræðu, ekki bara hjá einhverjum sérfræðingum úti í bæ, sameiginlegu EES-nefndinni eða hjá ríkisstjórnum, þessari eða þeirri fyrri eða hvað, heldur í samfélaginu mánuðum saman, stendur eftir að staðreyndir eru óútkljáðar eftir margra vikna eða jafnvel mánaða rökræður meðal almennings. Þegar sú er staðan þýðir það að það vantar meiri tíma. Fólki getur fundist eitthvað skrýtið að það þurfi meiri tíma en stundum er það bara þannig og ég legg til að það sé staðreynd að það sé þannig í þessu máli. Burt séð frá því nákvæmlega hvers vegna við teljum þær staðreyndir blasa við, sem ég hef kvartað undan í fyrri ræðum, blasir staðreyndin við. Þetta mál þarf meiri tíma. Það má bölva því í sand og ösku en þannig virðist það samt vera, alltént fæ ég ekki betur séð. Mér finnst það sjást mjög vel af almennri umræðu um þetta mál.

Í umræðunni í þingsal og víðar hefur verið spurt hvort ekki eigi að líta á þetta mál aðeins meira í samhengi við það ef hér verði lagður sæstrengur. Mér finnst það góð spurning. Við höfum svolítið verið að ræða þetta út frá því einvörðungu að hér yrði ekki lagður sæstrengur. Ég hef samt nefnt í einhverri ræðu, held ég alveg örugglega, að ég telji þetta mál mikilvægt, sérstaklega ef það verður lagður sæstrengur. Það segi ég þrátt fyrir að vera á móti sæstreng. Ef það verður lagður sæstrengur fæ ég ekki betur séð en að það væri betra að hafa þriðja orkupakkann innleiddan undir þeim kringumstæðum. Ég held að það skipti afskaplega litlu máli án sæstrengs, bætir aðeins sjálfstætt eftirlit hjá Orkustofnun, ekkert stórmál en vissulega ekki slæmt heldur, en ef lagður yrði sæstrengur á Íslandi, þá gegn mínum vilja, myndi ég vona að það væru skýrar reglur milli okkar og þess markaðssvæðis sem við myndum kaupa og selja orku til og frá, nefnilega Evrópusambandsins og EES-svæðisins. Þess vegna finnst mér í því fyrirkomulagi sem er lýst í 7.–9. gr. í reglugerð 713/2009, þeirri sem hefur verið hvað mest umdeild í þessum orkupakka, þær greinar jákvæðar, að þær séu góðar. Þær setja þær skyldur á Orkustofnun, hina alíslensku Orkustofnun, að setja reglur um hluti eins og aðgang og fleira í þeim dúr, hvernig eigi að haga reglum um aðgang og svoleiðis. Ég ætla að ítreka að það er þá Orkustofnun, hin íslenska, sem myndi setja þær reglur einhliða. Svo ætti stofnunin hinum megin, sem væri væntanlega Bretland, skilst mér, að setja reglur sín megin. Svo þyrftu þessar stofnanir eðlilega að koma sér einhvern veginn saman um sameiginlegar reglur vegna þess að þær tengjast hvor annarri, bara alveg eins og þegar maður fer út í búð og kaupir brauð þarf maður að vera sammála þeim sem selur manni brauðið um hvert verðið skuli vera. Það er eðlilegt að þarna sé eitthvert samráð.

Ef það tækist ekki fyndist mér eðlilegt, og ég veit ekki hvað gæti verið eðlilegra, að þessar þjóðir væru fyrir fram búnar að koma sér saman um eitthvert ferli þar sem hægt væri að útkljá slíkan ágreining. Það væri þá ESA samkvæmt þessu máli. Ég tel að það væri jákvætt undir þeim kringumstæðum að sæstrengur yrði lagður á Íslandi. Ég kemst ekki lengra í bili, virðulegi forseti, en óska þess að vera settur aftur á mælendaskrá.