149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þyrfti að skoða nákvæmlega þau gögn sem hv. þingmaður er að tala um til að meta hvort þetta sé rangt hjá hv. þingmanni. Mig langar líka að segja að jafnvel þótt ég myndi skoða þau og komast að þeirri niðurstöðu að þau væru röng myndi ég ekki koma hingað í pontu og saka hv. þingmann um óheiðarleika. Ég geri það mjög sparlega og vil reyndar helst ekkert gera það.

Ég skal nefna hvað það er sem ég er að tala um. Ég er að tala um málflutning hv. þm. Ólafs Ísleifssonar þegar hann las upp úr áliti hv. fræðimanna Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts, sem er úrelt, og lét eins og það væru nýjustu upplýsingarnar. Svo spurði ég hvert álit þessara fræðimanna væri vegna þess að ræða hans gaf mjög misvísandi sýn á það, svo meira sé ekki sagt. Hann taldi sig ekki vita það. Þá spurði ég hann hvort hann hefði lesið nýrra álit þeirra og hann sagðist hafa gert það. Þar kemur fram afstaða þessara fræðimanna. Það sem fór svo mikið fyrir brjóstið á mér var að þarna voru mönnum úti í bæ lögð orð í munn. Ég ætla ekki að segja meira um það, virðulegi forseti, vegna þess að mig langar svolítið að fara út úr þeirri umræðu. Ég er búinn að tjá mig um það og koma því á framfæri hvað mér finnst um það og hvaða óheiðarleika ég var að tala um á þeim tíma.

Ég skal hins vegar glaður kynna mér þessi gögn. Aftur á móti verð ég að segja líka að jafnvel þótt allt í þessum gögnum sé á þann hátt sem hv. þingmaður segir, ég gef því fullan séns, breytir það því ekki að orkupakki þrjú felur einfaldlega ekki í sér eitthvað sem myndi hækka raforkuverð nema þá um — ég þori ekki einu sinni að spá fyrir um hversu margar krónur það yrðu vegna hærra eftirlitsgjalds sem hljóðar upp á 47 eða 49 milljónir frá ríkissjóði eða eitthvað því um líkt. Það er einfaldlega ekkert í þessum orkupakka, mér vitandi, sem er þess eðlis að myndi hækka raforkuverð. Stórar breytingar á öllu kerfinu í heild skil ég mjög vel að hækki raforkuverð og ég skil það mjög vel ef það hefur verið innleitt í orkupakka eitt eða tvö en þetta er orkupakki þrjú. Þetta er einfaldlega ekki hættuatriði.