149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni kærlega fyrir að koma til umræðunnar og fagna því að hann sé búinn að setja sig aftur á mælendaskrá. Það komu svo margar spurningar upp í hugann að ég mun alveg örugglega þurfa að koma í andsvar við næstu ræðu hans líka. Ég ætlaði aðeins að koma inn á það sem hann sagði um hv. þm. Ólaf Ísleifsson en ég treysti á að Ólafur komi hér í næsta hring og að þeir geti rökrætt þetta.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann nokkurs. Ég skynja það þannig að hann skynji ACER-stofnunina eins og eins konar gerðardóm, er ekki rétt skilið? Að stofnunin sé til að koma á sameiginlegum skilningi milli t.d. Breta og Íslendinga eins og hann nefndi í dæmi sínu. Er það réttur skilningur hjá mér? (Gripið fram í.) Nei, ókei, en af því að þarna hefur þessi úrskurðaraðili, skulum við kalla hann, ACER, ákveðið „agenda“, sem er að framfylgja orkustefnu Evrópusambandsins, telur hv. þingmaður ekki líklegt að ACER, komi til þess að ACER úrskurði, muni alltaf taka mið af markmiðum Evrópusambandsins, sem sagt orkustefnu sambandsins, þegar að úrlausn mála kemur? Fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Sturla Böðvarsson, sagði í Morgunblaðsgrein fyrir ekki löngu: Það hefur lítið upp á sig að hafa einhverja stjórn á því hvort rafmagnsstrengur verður lagður eða ekki sem eflaust verður ef menn missa stjórn á orkumarkaðsmálunum í kjölfarið.

Hitt atriðið sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um í þessari atrennu er: Deilir hann ekki þeirri skoðun með mér, og ég held að ég geti sagt öllum Miðflokksmönnum, að ástæða væri til að greina stöðuna eins og hún yrði að aflokinni lagningu sæstrengs þrátt fyrir að það sé auðvitað (Forseti hringir.) ekki innrammað í þessa innleiðingu? Ef það verður niðurstaðan eru ákveðnar líkur á að svo verði. Verðum við ekki að vita hvaða sviðsmynd bíður okkar handan við þá lagningu?

(Forseti (BHar): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða ræðutímann og áréttar jafnframt að þingmálið er íslenska.)