149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fara í síðari ræðu um áhrifin af þriðja orkupakkanum að gefinni lagningu sæstrengs, sér í lagi áður en hann yrði lagður en líka þegar hann yrði lagður. Ég hef ekki tíma til að svara því hér en mun koma að því í seinni ræðu.

Hvað varðar það að ACER myndi framfylgja einhverri hagsmunabaráttu — (Gripið fram í: Áformum.) já, áformum, má í fyrsta lagi nefna að ACER myndi ekki taka neinar ákvarðanir vegna þess að við erum ekki að láta ACER hafa neitt vald. ESA myndi taka ákvarðanirnar, vissulega út frá drögum sem kæmu frá ACER og eðlilega, vegna þess að markmiðið er að hafa sameiginlega stefnu, alveg eins og það er markmið á símum að hafa sameiginleg tengi þannig að við getum öll notað tengin hvert hjá öðru. Það er gott, það er samhæfni, það er gott og það er svolítið pælingin, að markaðsreglurnar í Evrópusambandinu og EES-svæðinu séu eins þannig að það sé auðveldara og frjálsara fyrir okkur Íslendinga og alla aðra að fjárfesta, stunda viðskipti, búa til störf og allan þann góða djass alls staðar á EES-svæðinu. Það er jákvætt markmið. Það er ekki eitthvað sem ég myndi nota enska orðið, með leyfi, „agenda“ yfir, það er eitthvað sem ég myndi frekar nota orðið hlutverk yfir. Það er hlutverk ESA og hlutverk ACER að ná þeim markmiðum sem fyrirhugað er að ná með þessum þriðja orkupakka. Þau markmið eru góð. Þau eru ekki vond. Þau eru góð að því gefnu að það sé til sæstrengur. Það þýðir ekki að það sé góð hugmynd fyrir Íslendinga að leggja sæstreng eins og ég fór yfir áðan og mun fara aftur yfir seinna.

Þótt ESA muni taka ákvarðanir gagnvart okkur í stað ACER þýðir það ekki að ESA muni endilega úrskurða út frá nákvæmlega sömu forsendum vegna þess að ESA er stofnun sem einfaldlega sinnir öðru hlutverk en ACER. ACER er mjög sérhæfð stofnun sem sér um orkumál einvörðungu en ESA er stofnun sem er til þess að framfylgja EES-samningnum á EES-svæðinu. Þetta er eðlisólíkt hlutverk. Það er mjög eðlilegt að ESA fái álit (Forseti hringir.) ACER til viðmiðunar en ég sé ekkert því til fyrirstöðu að ESA myndi breyta sínum úrskurði með hliðsjón af sínu hlutverki gagnvart EES-sambandinu sem er öðruvísi en ACER gagnvart ESB.