149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli er svarið: Nei, ég veit ekki til þess og þekki þau mál ekki nógu vel til að svara þeim með mjög upplýstum hætti. Hins vegar getum við alveg lagt sæstreng í dag án þess að vera með þriðja orkupakkann ef við viljum. Það er ekkert því til fyrirstöðu. Mér finnst það stundum vanta í umræðurnar, mér finnst svolítið látið eins þriðji orkupakkinn sé einhver forsenda þess að leggja sæstreng þegar svo er ekki. Umræðan um að leggja sæstreng var til komin löngu áður en þriðji orkupakkinn varð til, reyndar áður en EES-samstarfið var tekið upp á Íslandi. Við gætum alveg lagt sæstreng í dag án þess að hafa þriðja orkupakkann og án þess að vera í EES. Við gætum það alveg. Hvernig nákvæmlega það myndi líta út veit ég ekki. Ég veit bara hvernig hlutirnir líta út eins og ég hef skoðað þá. Ég hef skoðað þá í samhengi við raunveruleikann á Íslandi eins og hann er í dag og raunveruleikann sem birtist mér í þriðja orkupakkanum. Mig langar mjög mikið til að fara aðeins nánar út í það en nú þrýtur tímann enn og aftur.

Virðulegi forseti. Þetta málþóf fær ekki alveg nógu mikinn tíma. (BergÓ: Þarna kom það loksins.)