149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Fyrst langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að ef sæstrengur yrði lagður út frá forsendum Íslendinga myndi það leiða til lækkunar á raforkuverði eða e.t.v. hækkunar. Hefur þingmaðurinn spáð í það? Hann virðist hafa spáð töluvert í þessi sæstrengsmál.

Síðan langar mig að spyrja þingmanninn framhaldsspurningar vegna þess að hann svaraði ekki spurningu hv. þm. Birgis Þórarinssonar áðan. Út frá gerð 72/2009 sem við skiljum þannig að einkaaðilar muni þar fá skilyrðislausan rétt til að nýta flutningsnetið til að flytja vöru sína um netið og þar af leiðandi skal, eins og við skiljum þetta, netið vera undir það búið að þessir aðilar geti flutt vöru sína um þetta net, þó að ekki væri nema innan lands. Kostnaður af netinu skal hins vegar greiddur af okkur öllum, þ.e. þjóðinni. Hann er ekki greiddur af þessum fyrirtækjum sem með beinum hætti munu tengjast, hvort sem það eru vindmyllur eða eitthvað annað, heldur af okkur. Trúlega mun stóriðjan reyndar sleppa því að hún er með einhverja langtímasamninga. Er þingmaðurinn ósammála þessu? Hefur hann annan skilning á tilskipun 72/2009? Það er mjög mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að með þessu mun raforkuverð hækka. Það kom m.a. fram í máli hv. þm. Birgis Þórarinssonar, þetta er dæmi um að innleiðingin mun hafa áhrif á hækkun á raforku því að það er enginn annar en notandinn sem mun borga á endanum uppbyggingu flutningsnetsins sem við erum skyldug að byggja upp samkvæmt þessari tilskipun 72/2009 eins og við skiljum hana.

Það er sem sagt spurningin um orkuverðið og þessa tilskipun. Síðan er ég með fleiri spurningar sem ég kem vonandi að á eftir.