149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einungis eitt atriði í tilskipun 72/2009 sem mér hefur verið bent á, sem er talið af einhverjum hafa þessi áhrif, þ.e. áttundi inngangsliðurinn og mig langar að lesa hann fyrst ég hef nokkrar sekúndur, með leyfi forseta:

„Til að tryggja samkeppni og afhendingu rafmagns á sem samkeppnishæfustu verði skulu aðildarríkin og landsbundin eftirlitsyfirvöld auðvelda aðgengi nýrra afhendingaraðila raforku, með raforku frá mismunandi orkugjöfum, yfir landamæri og fyrir nýja söluaðila í orkuframleiðslu.“

Ef hv. þingmaður á við eitthvað annað í þessu skjali skal ég glaður skoða það, en þetta er það eina sem mér hefur verið bent á hingað til hvað varðar þetta efni. Ég get skilið hvernig lestur þessi getur gefið þá tilfinningu en ég myndi ekki túlka þetta þannig, í fyrsta lagi vegna þess að þetta er inngangsliður, þetta er ekki grein, þetta er miklu heldur til skýringa við heildarsamhengi plaggsins sem er sett og það samhengi er að draga úr óeðlilegum hindrunum. Það er bara sama markmið og EES-samstarfið gengur út á, þ.e. að draga úr hindrunum með viðskipti og þjónustu. Það þýðir ekki að það verði skyndilega skylda ríkisins að fara í jákvæðar aðgerðir til að tryggja að eitthvað geti gerst, heldur miklu frekar að vera t.d. ekki að setja upp einhver ómálefnaleg gjöld eða leyfisreglur sem mismuna fólki eða eitthvað því um líkt eða setja upp ferla sem koma í veg fyrir heilbrigða samkeppni o.s.frv. Markmiðið er að gera viðskiptin sem auðveldust og koma í veg fyrir að einhverjar ómálefnalegar hindranir á viðskipti séu til staðar. Það er lögmætt og gott markmið sem mér finnst að allir ættu að aðhyllast.

Að því sögðu er ég, eins og ég sagði áðan, allur eitt eyra. Ef það er eitthvað annað í þessu skjali sem hv. þingmaður telur hafa slík áhrif að það verði einhver pósitíf skylda á hendur íslenska ríkinu að greiða fyrir uppbyggingu einhverra grunnvirkja fyrir einkaaðila skal ég bara glaður skoða það og veita hv. þingmanni betri svör síðar.