149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Það sem mig langar að koma inn á í ræðu minni er sjónarmið sem komið hefur fram um að EES-ríkin sýni aðstæðum okkar Íslendinga skilning. Á sama hátt hefur verið komið inn á það að ESB-ríkin sýni sjónarmiðum Íslands skilning varðandi þá sérstöðu sem hér er, að hér séu engin mannvirki yfir landamæri sem geti flutt raforku og þar fram eftir götunum. Þó að það kunni mögulega að vera raunin að fulltrúar þessara ríkisstjórna eða ríkja í Brussel og þar fram eftir götunum sýni þeim sjónarmiðum einhvern skilning, a.m.k. fram að þeim tíma að innleiðing þriðja orkupakkans hefur verið kláruð, sýnir reynslan — og enn einu sinni segi ég; sporin hræða — að það eru fyrst og fremst einkaaðilar sem sækja skaðabætur á grundvelli rangrar innleiðingar.

Nýjasta dæmið sem við höfum hér heima er skaðabætur dæmdar á grundvelli þess málefnis sem snýr að innflutningi á ófrosnu kjöti. Það eru ekki stofnanir Evrópusambandsins sem eru að kæra íslenska ríkið til að sækja skaðabætur heldur eru það einkaaðilar sem byggja rétt á niðurstöðu ESA og þannig er, ef ég man töluna rétt, 3 milljarða skaðabótakrafan til komin, sem nú er uppi. Það dugar okkur því miður ekki hér heima að sannfæra okkur um að félagar okkar erlendis, embættismennirnir sem eru á fundunum þar sem farið er yfir þessi mál, segi að þetta sé allt voða fínt og menn gefa út sameiginlegar yfirlýsingar um sameiginlegan skilning, samanborið við sameiginlegan skilning EFTA-ríkjanna annars vegar, samanborið við skilning hæstv. utanríkisráðherra og orkumálastjóra Evrópusambandsins hins vegar, sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir, Spánverji er hann. Í slíkum yfirlýsingum er ekkert hald, ekki neitt, þegar kemur að því að menn vilji byggja rétt á grundvelli rangrar innleiðingar á regluverkinu. Ég held að það sé einfeldni eða barnaskapur í því fólginn að standa hér í pontu eins og sumir fylgismenn innleiðingar þessa regluverks hafa gert og segja staffírugir: Það er fullur skilningur á því að staða okkar sé sérstök.

Staða okkar er þannig að enginn fer að gera athugasemdir við það að við tökum stjórnina til okkar með þessum heimatilbúnu fyrirvörum. Það sem við sjáum birtast í dómsniðurstöðum fyrst og síðan skaðabótakröfum og síðan viðbrögðum stjórnvalda núna, sem við sjáum væntanlega fyrir þinglok, varðandi málin er tengjast innflutningi á ófrosnu kjöti, þá er staða okkar, að því er virðist, metin þannig að fátt sé til varnar. Við eigum að hætta að tala um að svo mikill skilningur sé hjá EES-ríkjunum eða ESB-ríkjunum í heild sinni fyrir sérstöðu Íslands í þessu máli. Það eru litlar líkur á að sá skilningur lifi öllu lengur en fram yfir innleiðingu þriðja orkupakkans og gildir þá einu hvort sæstrengur verður kominn eða ekki.

Við eigum því að tala um hlutina eins og þeir eru, við eigum að láta okkur málið sem snýr að ófrosna kjötinu að kenningu verða. Þar enduðum við, því miður, í stöðu sem virðist þurfa töluverðan kjark til að takast á við og ef menn líta á þetta sem sjálfstæðan rökstuðning fyrir því að (Forseti hringir.) innleiða þriðja orkupakkann erum við á mjög vondum stað.