149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:01]
Horfa

Frsm. minni hluta (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er feginn að heyra að hv. þingmaður er mér sammála um það. Þá aðeins að seinni röksemdafærslunni, þ.e. hræðsluáróðrinum svokallaða varðandi EES-samninginn. Menn hafa blandað inn í þessa umræðu kostum þess samnings og tínt til eitt og annað, að menn geti ferðast óhindrað á milli landa og annað eftir því. Allt gott og blessað, en ég sé ekki alveg hvaða samhengi er á milli þess og svo þess að innleiða þennan þriðja orkupakka. Ég myndi segja þvert á móti vegna þess að ef við förum þá leið sem ríkisstjórnin leggur upp með — þetta er mitt mat og það væri áhugavert að heyra hvort hv. þingmaður er sammála mér — þá fyrst erum við að setja EES-samninginn og kosti hans í hættu. Með því værum við að viðurkenna þann rökstuðning stjórnarliða og annarra sem hafa talað fyrir þessu máli að þessi samningur sé ekki samningur jafn rétthárra aðila sem snúist um gagnkvæma hagsmuni heldur einhvers konar ógnarsamband þar sem Ísland eigi að vera þakklátt fyrir það sem það fær og ekki gera neitt sem einhver gæti talið til þess fallið að ergja, ég veit ekki hverja, embættismenn í Brussel eða embættismenn í Ósló. Þá fyrst, ef við færum að nálgast þennan samning með þeim hætti, værum við að setja hann í hættu. Þá er líka viðbúið að íslenskur almenningur muni í auknum mæli fá efasemdir um þennan samning, annars vegar vegna þeirra mála sem eru innleidd eins og þriðja orkupakkans en líka vegna þess að stjórnvöld séu farin að stilla honum upp sem svo að Íslendingar (Forseti hringir.) lúti á einhvern hátt þessum samningi umfram aðrar þjóðir.