149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að mér takist að fylgjast með ræðu hv. þingmanns um efnið á eftir vegna þess að mér finnst það áhugavert í ljósi þessa. Ég hugsa að misskilningurinn hjá ríkinu hafi falist í því að upprunalega, þegar við gengum í EES, var gerður tímabundinn fyrirvari við ýmis atriði sem var síðan endurskoðaðar með þessari ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, 133/2007. Þannig lítur það út í mínum augum.

Það breytir því ekki að sagan er ekki sú samkvæmt þessu að við höfum gert einhverja fyrirvara og að þeir hafi síðan ekki dugað. Sagan er miklu frekar svona: Úps, við gleymdum að setja fyrirvarana þegar við áttum að gera það. Eðlilega eru slíkir fyrirvarar þá ekki í gildi, alveg óháð því hvort það er EES eða eitthvað annað. Þannig virka lög, ef maður gleymir að setja einhver lög eru þau ekki í gildi fyrr en þau eru sett.

Ég læt hv. þingmann njóta alls þess vafa sem ég mögulega get og hlakka til að hlusta á ræðu hans á eftir fái ég tækifæri til.

Þá er þess virði líka að tala aðeins um fyrirvarana í þessum málum vegna þess að þeir gilda um hluti í reglugerð 713/2009, sér í lagi 7.–9. gr. sem einfaldlega fjalla ekki um ákvörðun um að leggja sæstreng. Þess vegna er stundum sagt að þessir fyrirvarar séu í raun til heimabrúks og það alveg satt. Þetta er ekki spurning um hvað EES finnst, það snýst um samhæfni við lagakerfi Íslands. Það snýst um það hvernig íslenskum lögfræðingum tekst að líta á þetta þannig að þetta sé þokkalega snyrtilegt, nokkuð sem er ábyrgðarhluti af okkur að gera og hefði engar raunverulegar afleiðingar ef við hefðum sleppt að mínu mati. Í það minnsta eru þessir fyrirvarar efnislega ólíkir og eðlisólíkir (Forseti hringir.) en ég hlakka til að hlusta á ræðu hv. þingmanns gefist mér færi á því þegar hann fer nánar út í þetta frosnakjötsmál.