Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:14]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Herra forseti. Ég hyggst halda áfram umfjöllun minni um þá stórmerku frétt sem birtist í Sunday Times í gær um áform um lagningu sæstrengs til Íslands, enda hefur hún gríðarlegt skýringargildi fyrir þetta mál og hvernig við þurfum að taka á því í þinginu. En eins og ég hafði nefnt þá sagði blaðið frá því að maður að nafni Edi Truell og fjárfestar sem með honum starfa, væru að auka þrýsting á viðskiptaráðherra Bretlands um að veita þessu verkefni tiltekna skilgreiningu, þ.e. samþykkja Ísland sem aflandsframleiðanda raforku svoleiðis að hægt væri að ráðast í sölu orku héðan á niðurgreiddu verði, þ.e. að fyrirtækið fengi þá styrki sem bresk stjórnvöld veita fyrirtækjum fyrir það að auka aðgang að endurnýjanlegri umhverfisvænni orku. Það kom fram að þetta væri allt saman fullfjármagnað og eina hindrunin í veginum væri biðin eftir því að breska ríkisstjórnin, eða þessi breski ráðherra, myndi staðfesta þessa skilgreiningu á orkuframleiðslu hér á landi sem aflandsorkuframleiðslu.

Svo kemur eitt og annað áhugavert til viðbótar fram í þessari grein. Þessi Truell mun vera fyrrum ráðgjafi Boris Johnsons, sem kann vel að verða forsætisráðherra Bretlands áður en langt um líður, og hann hefur talað fyrir þessari tengingu um alllangt skeið, ég rakti það í fyrri ræðu, og er tilbúinn til að hefja framleiðslu á sæstrengnum þegar verkefnið er búið að fá þessa viðurkenningu sem ég nefndi áðan. Raunar er farið út í tæknilega lýsingu á því með hvaða hætti verði komið í veg fyrir orkutap við flutning um þennan streng.

Vel að merkja, herra forseti. Það er mjög áhugavert að samkvæmt þessu verkefni er gert ráð fyrir því að strengurinn komi á land í Norðaustur-Englandi en ekki Skotlandi, sem er auðvitað töluvert lengri leið, en það mun vera vegna þess að til stendur að nýta orkuna á því svæði til atvinnuuppbyggingar.

Svo er líka mjög áhugavert að í greininni er fjallað um það með hvaða hætti veittur er sérstakur stuðningur við verkefni af þessum toga. En í niðurlagi greinarinnar segir, og nú verð ég að biðja hæstv. forseta að sýna skilning á því að þetta er allt saman glænýtt og fyrir vikið á ensku svoleiðis að ég er að þýða þetta svona jafnóðum, að samkvæmt skuldbindingum breskra stjórnvalda um aukinn aðgang að endurnýjanlegri orku verði orkusalar, þ.e. orkusölufyrirtæki, að selja ákveðið hlutfall orku sem unnin er með endurnýjanlegum hætti. Með því móti sé ætlunin að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en um leið feli það í sér talsverða verðhækkun. Þetta tengist auðvitað umræðunni hér á landi um orkuverð. Annars vegar hafa verið færð mjög greinargóð rök fyrir því, sem ég hef ekki heyrt neinn hafna, að tenging landsins með sæstreng myndi fela í sér hækkun orkuverðs vegna þess að það yrði jafnað upp í Evrópuverðið. En svo bætist við að orkuverð hefur verið að hækka jafnt og þétt í Evrópusambandslöndunum, ekki hvað síst vegna þess að það er lagt sérstakt álag á orkuverðið til að stjórnvöld geti svo niðurgreitt og stutt við aukna framleiðslu á umhverfisvænni orku.

Þetta er enn eitt dæmið um að þetta samrýmist ekki aðstæðum á Íslandi.