149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:20]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er síst ofmælt hjá hv. þingmanni að þessi frétt Lundúnablaðsins Times í morgun sætir auðvitað stórtíðindum á Íslandi og ekki síst inn í þá umræðu sem hér stendur yfir. Hún er af þeirri stærð að hún ein með öllum þeim fjölmörgu spurningum sem hún vekur ætti náttúrlega leiða til þess að þessu máli yrði frestað.

Ég ætla að nefna tvö atriði, annars vegar það að við vitum ekki um afdrif samningsbrotamáls gegn Íslandi sem gæti sprottið, eins og rakið er í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar. Þeir nefna á blaðsíðu 35 að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis um raforkutengingu við landið gæti fyrirtækið snúið sér til Eftirlitsstofnunar Evrópu með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli. Þeir segja orðrétt í framhaldi af því, með leyfi forseta:

„Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“

Svona á mæltu máli má kannski segja að þeir séu að lýsa því viðhorfi að menn skyldu vera undir það búnir að slíkt mál væri fyrir Ísland fyrir fram tapað.

Er hv. þingmaður sammála mér um að kalla þurfi eftir fjárhagslegri greiningu á því hvaða fjárhagslegar kröfur gætu verið (Forseti hringir.) lagðar fram á hendur okkur í slíku máli?