149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:27]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er býsna sláandi að þessi mál séu til umræðu í þinginu samtímis, annars vegar tilraun ríkisstjórnarinnar til að ná í gegn máli sem gengur út á það að lúta vilja Evrópusambandsins og túlkun þess þar sem því er haldið fram að Íslendingar hafi ekki uppfyllt skilyrði EES-samningsins þrátt fyrir að til að mynda Stefán Már Stefánsson, sem hv. þingmaður vitnaði í, hafi sagt það skýrt að hann teldi dóm EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar í því máli vera rangan. Það væri rangur dómur vegna þess að Ísland hefði haft þessar undanþágur.

Á sama tíma er ríkisstjórnin hins vegar að reyna að koma hér í gegn máli með mjög óljósum undanþágum eða fyrirvörum, svo maður orði það kurteislega, sem hafa ekki enn fundist þrátt fyrir að leitin haldi áfram. En berum líka saman stærð þessara mála, ekki bara í fjárhagslegu tilliti heldur í pólitísku tilliti út frá markmiðum Evrópusambandsins. Kjötmálið svokallaða er risamál fyrir Íslendinga og íslenska hagsmuni en það er smámál í heildarsamhenginu fyrir Evrópusambandið.

Orkumálið hins vegar, þriðji orkupakkinn, er hluti af einu af meginmarkmiðum Evrópusambandsins. Ég hugsa að sumir myndu segja stærsta markmiði sambandsins nú um stundir, að tengja saman raforkukerfi og ná í aukinn aðgang að endurnýjanlegum orkugjöfum. Svoleiðis að við getum rétt ímyndað okkur — hvað sem líður því hvernig einkaaðilar myndu ganga fram og ég vænti þess að þeir myndu að sjálfsögðu verja hagsmuni sína með öllum tiltækum ráðum — (Forseti hringir.) hver þrýstingurinn frá Evrópusambandinu yrði ekki þeim mun meiri.