149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur væntanlega og vonandi ekki hv. þingmanni á óvart að það sé áhugi hjá fólki í öðrum löndum á að leggja sæstreng til Íslands. Það er ekkert nýtt. Það er alls ekkert nýtt eins og fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra hlýtur að vita. Óháð því þá erum við hv. þingmaður sammála um að lagning sæstrengs myndi ekki samrýmast íslenskum hagsmunum í víðum skilningi þannig að við höfum einhvern sameiginlegan snertiflöt í málinu.

Setjum okkur í þau spor að okkur langi til að leggja sæstreng, við hv. þingmaður séum búnir að stofna fyrirtæki, safna fullt af pening og okkur langi að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlandseyja. Hvað er það í þriðja orkupakkanum sem ætti að hjálpa okkur við það? Hvað væri auðveldara fyrir okkur að gera í þeim efnum ef þriðji orkupakkinn hefði þegar verið innleiddur? Hvað væri ódýrara fyrir okkur? Ég fæ ekki séð að það sé neitt.

Þriðji orkupakkinn felur í sér setningu aukalegs regluverks sem framkvæmdaraðilar telja væntanlega til trafala ef eitthvað er nema það sé til þess að skýra verklag. Það er öllum til hagsbóta að það sé skýrt. Það eru einu kringumstæðurnar sem ég get ímyndað mér að meira regluverk gæti þjónað hagsmunum framkvæmdaraðila við lagningu sæstrengs, þ.e. ef það skýrir eitthvað sem annars væri óskýrt en samt til staðar.

Ég er næstur á mælendaskrá og ætla aðeins út í þessa spurningu: Hvernig lítum við á málin ef við gefum okkur að það yrði lagður sæstrengur? Eitt af því sem ég skil ekki er hvað það er í þessum pakka sem hv. þingmaður og samflokksmenn hans telja henta hagsmunum þeirra sem vilja leggja sæstreng. Af hverju myndu þeir ekki alveg eins vilja leggja sæstreng í dag án þriðja orkupakkans?