149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég náði ekki seinustu greininni sem hv. þingmaður vísaði í í sambandi við þetta. Ég hef enn ekki fundið neitt í þessum pakka sem veitir neinum heimild, hvorki ESA né ACER, til þess að skipa svo fyrir um að lagður skuli sæstrengur milli Íslands og nokkurs annars lands. Ég bið hv. þingmann góðfúslega um að endurtaka þessar greinar sem hann nefndi vegna þess að ég er með eyrun opin og langar til að skilja þetta mál eins og það raunverulega er. Ef það er eitthvað öðruvísi en ég held að það sé þá skipti ég bara um skoðun, veigra mér ekkert við það, hef gert það margsinnis og það hefur komið fram hér í pontu og í fjölmiðlum og mér finnst það bara allt í lagi.

Ég sé ekki hvernig það á almennt að henta hagsmunum einhvers sem vill leggja sæstreng að fá á sig meira bákn og meiri skriffinnsku við það að leggja sæstreng en ella.

Hv. þingmaður nefndi sjálfur að þessir aðilar telji sig einungis þurfa samþykki viðskiptaráðherra Bretlands sem stendur. Telja þeir sig ekki þurfa þriðja orkupakkann sum sé?

Það er nefnilega málið, virðulegi forseti. Til að leggja sæstreng þarf ekki þriðja orkupakkann. Það er engin ástæða til að samþykkja þriðja orkupakkann til að leggja sæstreng nema fyrir hagsmuni neytenda sem vilja gagnsæi, neytendavernd og tryggja að samkeppni sé við lýði eins og pakkinn er hugsaður til þess að gera, eins og kemur svo skýrt fram í honum.

Ef hv. þingmaður getur sýnt mér hvar það stendur í þessum pakka að ACER eða ESA fái vald til að ákveða um sæstreng skal ég lesa það. Mér hefur verið bent á nokkra hluti sem ég er ekki sammála um að feli það í sér. Það eru 7.–9. gr. reglugerðar 713/2009 og síðan 8. inngangsliðurinn í tilskipun 72/2009. Að öðru leyti sé ég ekki hvernig það á að henta hagsmunum framkvæmdaraðila að hafa meira regluverk til að fara eftir.