149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður entist mér ekki tíminn í ræðu minni til að fara yfir akkúrat þann möguleika að við leggjum sæstreng en enginn orkupakki þrjú verði. Ég fæ ekki betur séð en að neytendur á Íslandi myndu þá standa að öllu leyti verr en ella vegna þess að markmiðið með þriðja orkupakkanum er — ég ætla að lesa úr tilskipun 72/2009, fyrsta inngangslið. Í lokin kemur fram, með leyfi forseta:

„… í því skyni að ná aukinni skilvirkni, samkeppnishæfu verði og hærra þjónustustigi, og að stuðla að afhendingaröryggi og sjálfbærni.“

Ég tel mjög líklegt, reyndar næstum því öruggt, að ef sæstrengur verður lagður muni verðið hækka, en ekki vegna þess að ESB muni eitthvað handstýra því, heldur vegna þess einfaldlega að þá verður meiri eftirspurn eftir þeirri orku sem þegar er til á Íslandi. Við erum með fullt af orku á Íslandi sem dregur niður verðið á Íslandi. Það er mikið framboð og lítil eftirspurn miðað við framboðið, þess vegna er verði lágt. Um leið og kemur rosalega mikil eftirspurn utan frá þá geri ég ráð fyrir að verðið hækki. En það gerist óháð því hvort þriðji orkupakkinn sé til staðar eða ekki.

Sé sæstrengur lagður án þriðja orkupakkans mun orkuverð hækka. Ég held að það myndi hækka meira, alla vega til lengri tíma ef enginn er þriðji orkupakkinn, vegna þess að þá er ekki þetta alþjóðlega batterí til að tryggja aukna skilvirkni, samkeppnishæft verð og hærra þjónustustig, afhendingaröryggi og sjálfbærni. Það eru markmið þessa pakka að tryggja þessa góðu hluti fyrir neytendur, þar á meðal líka gegnsæi, samkeppniseftirlit og neytendavernd. Þetta eru allt jákvæðir hlutir. Ekkert af þessu felur í sér að handstýra neinu verði, sem er umræða sem mér finnst mjög skrýtin en kom reyndar ekki fram í máli hv. þingmanns.

Ég fæ því ekki séð hvernig við erum betur sett sem neytendur með sæstreng án þriðja orkupakkans.