149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:53]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hafa fagnað því að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson taki þátt í umræðunni og sömuleiðis fagna ég því að hann skuli hafa lagst á árar með okkur sem höfum hvatt til þess að þessu máli yrði frestað, a.m.k. fram á haustið.

Í álitsgerð lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar, Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar, stendur í neðanmálsgrein nr. 62 á bls. 35, með leyfi forseta:

„Áréttað skal að þriðji orkupakkinn leggur enga skyldu á aðildarríki um að koma á fót raforkutengingu/grunnvirkjum yfir landamæri.“ — Þetta er alveg skýrt.

Neðar í sömu neðanmálsgrein segir:

„Ekki má þó gleyma að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi“ — þ.e. um að koma á raforkutengingu — „gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“

Nú eru fréttir dagsins um að hér sé langt kominn undirbúningur að sæstreng í tæknilegu tilliti, í fjárhagslegu tilliti. Hefur hv. þingmaður íhugað þá réttarstöðu sem er lýst í þessari neðanmálsgrein og hefur hann hugmyndir um það hvaða afleiðingar þetta gæti haft fyrir okkur ef (Forseti hringir.) tekið yrði upp slíkt samningsbrotamál gegn Íslandi? (Forseti hringir.) Líka í ljósi kjötmálsins sem stundum hefur verið vísað til hérna.