149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:07]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ólafur Ísleifsson nefndi atriði sem gefur mér tækifæri til að spyrja hann út í mál sem ég hef lengi ætlað að heyra álit hv. þingmanns á í þessari umræðu en ekki haft tækifæri til fyrr en nú.

Hv. þingmaður nefndi að búið væri að gera áætlun um hvar þessi sæstrengur eigi að koma á land í Bretlandi, sem sé í norðaustur Englandi, sem er auðvitað töluvert mikið sunnar en Skotland, þar sem menn hafa, held ég að mér sé óhætt að segja, oftast gert ráð fyrir að sæstrengur taki land. En það fylgir einmitt sögunni að menn sjái fyrir sér að græna orkan frá Íslandi sem verði flutt þarna á norðausturhorn Englands muni nýtast til stórkostlegrar atvinnuuppbyggingar á þeim slóðum. Til þess að skapa, til að byrja með, mörg hundruð störf og auka framleiðslu og verðmætasköpun í þeim landshluta.

Þetta er einmitt einn af þeim landshlutum sem hafa verið í forgangi hjá breskum stjórnvöldum varðandi byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu og ekki er hægt annað en að setja það í samhengi. Hvað segir þetta okkur um Ísland, ef orkan er flutt héðan og notuð í byggðamál á Englandi, að því er menn virðast telja? Hverju erum við þá að fórna hér á landi hvað varðar atvinnusköpun og verðmætasköpun?