149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:09]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Sú spurning sem hann skildi eftir um hvaða áhrif þetta gæti haft á verðmætasköpun og atvinnulíf hér er bara ein af fjölmörgum spurningum sem vakna við lestur þessarar fréttar. Það vekur athygli að engin úttekt liggur fyrir og engin greinargerð fylgir þessu máli ef slíkar aðstæður kæmu upp.

Það er engin greinargerð um það sem fullkomið tilefni hefði verið til að gera í framhaldi af neðanmálsgrein 62 þegar þeir félagar segja beinlínis stjórnvöldum að þau geti ekki gert sér vonir um, a.m.k. ekki miklar, að vinna samningsbrotamál sem gæti stofnast af því að einkaaðili, fyrirtæki, sneri sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli.

Ég ætla leyfa mér að segja það sömuleiðis að þeir aðilar sem eru að undirbúa lagningu sæstrengs, með öllum þeim tæknilegu um atriðum sem því fylgir, með tækniþekkingu og með öllum þeim tilfæringum sem greinilega hafa verið gerðar varðandi fjármögnun, hljóta náttúrlega að hafa kynnt sér og hljóta að vita gjörla um þá réttarstöðu sem við stæðum í að þessum orkupakka samþykktum. Þeir hljóta að meta það svo að þeir myndu geta brotið sér leið hingað í krafti slíks máls eins og þeir reifa í neðanmálsgrein 62 og spá fyrir um úrslitin, Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson.