149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:11]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Já, maður skyldi ætla það. En varðandi atvinnusköpun sem Bretarnir eða þetta fyrirtæki nefnir sem sérstök rök fyrir því að bresk stjórnvöld eigi nú að drífa í því að stimpla þetta, má þá ekki ætla sem svo að ef þessi íslenska orka getur til að byrja með skapað 800 störf, eins og þeir tala um og síðan fjölmörg störf í framhaldinu, hundruð eða þúsundir starfa, að það sama ætti við ef orkan yrði nýtt á Íslandi, að hún gæti skapað hér mörg hundruð, jafnvel þúsundir starfa?

Er þetta ekki sérstaklega mikilvægt í ljósi þess hvað orkan hefur reynst mikilvæg undirstaða atvinnuuppbyggingar á Íslandi hringinn í kringum landið? England er, eins og menn þekkja, mjög þéttbýlt land og með mjög fjölbreytilegan iðnað, þjónustustarfsemi og atvinnulíf yfir höfuð á meðan orkan hér á landi hefur — það að geta boðið upp á umhverfisvæna orku á viðráðanlegu verði — oft skipt sköpum fyrir jafnvel heilu landshlutana hvað varðar annaðhvort að viðhalda atvinnustigi eða fjölga störfum og auka verðmætasköpun. Má ekki álykta sem svo að ef menn telja þessa íslensku orku geta skipt sköpum fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðaustur-Englandi hljóti hún líka að skipta sköpum hér varðandi byggð og atvinnu á Íslandi?