149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:13]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Lítum á tölurnar. Hv. þingmaður nefndi töluna 800 störf. Ef hægt er að skapa 800 störf, ég skal ekki segja hvort afleidd störf eru einnig talin, en ef þau eru ekki talin á margfaldur fjöldi náttúrlega við. Þetta er gert í krafti þess, og áformin eru þannig, að leggja á orku til þeirra verkefna sem liggja að baki þessum störfum með þeim hætti að hún verði flutt 1.000 km leið með þeim ógnarkostnaði sem fylgir því að koma á slíkri tengingu, þar á meðal fjármagnskostnaði og kostnaði vegna orkutaps, sem gert er ráð fyrir að verði ekki nema allt að 5%, en það telur auðvitað líka í atvinnurekstri

Þá geta menn séð það, í því ljósi, þvílíkrar atvinnusköpunar, uppbyggingar og byggðaþróunar mætti vænta hér. Vegna þess að það er hægt að bjóða þessa orku á miklu lægra verði hér þar sem hún er framleidd og þar sem ekki er búið að kosta til sæstrengs lengri en þekkist og það um erfiða leið. Svo mikið er víst. Þessi þáttur málsins væri áhugavert verkefni fyrir fólk með sérþekkingu á hinum hagfræðilegu þáttum, byggðaþáttum og atvinnuskapandi þáttum og sköpunarþáttum. En ekki er erfitt að sjá að hægt væri að standa að miklu meiri uppbyggingu hér í krafti þeirrar orku en í Teesside á Bretlandi eftir að hafa flutt hana alla þá leið með ærnum kostnaði.