149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:15]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Umræðan um verðlagningu með eða án sæstrengs, sæstrengs með eða án orkupakka þrjú, er hluti af því sem ástæða væri til að kryfja með heildstæðari hætti en tækifæri hafa gefist til í þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin. Að mínu mati er hverfandi sú vinna sem lögð hefur verið í að greina mögulega kostnaðarþróun eftir því hvaða leiðir eru valdar.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Ólaf Ísleifsson hver hann meti áhrifin af þessu. Áhrif á rekstur heimilanna er auðvitað eitt en ég er aðallega í þessu samhengi að horfa til fyrirtækja á landsbyggðinni, að innleiddum þriðja orkupakka og eftir að sæstrengur hefur verið lagður. Ég ætla nú að nálgast málið þannig að það séu drjúgar líkur á að sæstrengur verði lagður á einhverjum tímapunkti og hef flutt rök fyrir því í fyrri ræðum, sem ég hef ekki tíma til að endurtaka en geri í ræðu síðar ef kallað verður eftir því. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér áhrif á rekstur á landsbyggðinni, bæði hvað varðar aðgengi að orku og síðan verð á orku.