149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir svarið. Ég held að þetta sé einmitt atriði sem of lítill gaumur hefur verið gefinn að, þ.e. stóra myndin varðandi þróun verðlagningar raforku.

Í okkar góða landi er ýmislegt sem spilar gegn rekstri fyrirtækja, ef svo má segja. Aðföng eiga til að vera dýr, flutningskostnaður er hár, bæði innflutningur hráefna og útflutningur unninnar vöru, og þar fram eftir götunum. Það er eitt og annað sem spilar á móti okkur. Markaðsforskot á afmörkuðum hluta rekstrarreiknings fyrirtækja, ef svo má segja, snýr að hagkvæmu orkuverði. Það verður ekki litið fram hjá því að það er beinlínis ósanngjörn röksemdafærsla að halda því fram að íslenskum fyrirtækjum sé engin vorkunn að borga sama orkuverð og fyrirtæki á meginlandi Evrópu þegar staðreyndin er sú að íslensk fyrirtæki taka nú þegar á sig og ekkert bara taka á sig heldur lenda þau bara í því að ýmis aðföng og kostnaður er hærri hér vegna legu landsins og smæðar. Við þekkjum þessi rök öll.

Spurning mín er: Sér hv. þingmaður fyrir sér að við höfum meiri eða minni stjórn á orkumarkaðsmálum innan lands með eða án orkupakka þrjú eins og hann er lagður upp núna?