149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Fyrst af öllu langar mig til að lýsa ánægju minni með það að hingað í ræðustól rataði ungt fólk, bæði hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson og hv. þm. Olga Margrét Cilia. Mig hefði langað að eiga orðastað við þau bæði og þá einkanlega hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson, en þau eru bæði farin af vettvangi. Mig langaði til að svara nokkru af því sem fram kom t.d. í ræðu hv. þm. Olgu Margrétar Cilia. Ég held að hún hafi misskilið svolítið innihald margra þeirra ræða sem hér hafa verið haldnar vegna þess að hún talaði mikið um hræðsluáróður. Hann hefur ekki verið rekinn úr þessum ræðustóli af þeim sem hafa talað fyrir Miðflokkinn.

Ég vildi líka segja, af því að hún talaði um fjórfrelsið: Jú, að sjálfsögðu erum við hlynnt því, við erum náttúrlega hlynnt því að, eins og hún orðaði það, eldra fólk geti dvalið á Kanaríeyjum og að ungt fólk geti sótt sér menntun í útlöndum, nákvæmlega eins og ungt fólk frá útlöndum sæki sér menntun hér. Allt hið besta mál. Við erum ekki hrædd við útlendinga nema síður sé. Við erum ekki hrædd við EES-svæðið eða Evrópusambandið, en við viljum að reglur gildi sem haldi. Og það er kannski mergurinn málsins. Við höfum talað dálítið um fyrirvara, eða fyrirvaraleysi, vegna þess að þeir fyrirvarar sem settir hafa verið hér í þessu máli duga hvergi.

Ég ætlaði reyndar í þessari ræðu minni og nokkrum þeim næstu að fjalla dálítið um það sem Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur hefur lagt til málanna. En af því að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson vitnaði til þess að það sem segir í skýrslu Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar frá því í mars sé ekki það sama og kemur fram í áréttingarbréfi þeirra sem lagt var fram 10. apríl, þá langar mig að vitna í viðtal við Friðrik Árna Friðriksson Hirst þann 10. apríl 2019 í Morgunblaðinu þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Færa má rök fyrir því að meiri lagaleg óvissa felist í þeirri leið sem ríkisstjórnin hyggst fara varðandi innleiðingu á þriðja orkupakka Evrópusambandsins en því ef Alþingi hafnaði því að samþykkja orkupakkann með því að aflétta ekki stjórnskipulegum fyrirvara vegna hans.“

Síðan kemur fram, með leyfi forseta:

„Friðrik segist aðspurður ekki telja að lagaleg óvissa ríki í raun um þær afleiðingar sem það hefði ef Alþingi hafnaði því að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna þriðja orkupakkans. Hins vegar gæti það haft pólitíska óvissu í för með sér.“

Þetta höfum við farið nokkrum sinnum yfir.

Ég ætlaði að taka hina ágætu umsögn Eyjólfs Ármannssonar lögfræðings, sem lítið hefur verið hér til umræðu, og fara yfir hana af því að hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hv. formaður utanríkismálanefndar, staldraði hér stutt við í dag og ég átti eiginlega von á því að geta átt við hana orðastað um einmitt þetta álit Eyjólfs Ármannssonar. Hann segir í örstuttri samantekt, með leyfi forseta:

„Alþingi á að hafna þriðja orkupakkanum og tilkynna það sameiginlegu EES-nefndinni. Slík málsmeðferð ógnar ekki EES-samningnum og er í fullu samræmi við ákvæði hans.“

Hann segir seinna í þessu áliti:

„Verði þingsályktunartillagan samþykkt er ekki verið að uppfylla þjóðaréttarskuldbindinguna um að taka ESB-gerðir þrjár um raforku og þá um samstarfstofnunina upp í landsrétt, samanber 7. gr. EES-samningsins. Einungis er verið að veita stjórnvöldum heimild til að samþykkja hana. Þingsályktun er hvorki lagasetning né heimild til stjórnvalda til setningar reglugerðar. Ef ætlunin er að fresta innleiðingu á ESB-gerðunum um óákveðinn tíma verður það að koma skýrt fram í þingsályktunartillögunni, svo er því miður ekki. Frestun á innleiðingu er ekki innleiðing þjóðaréttarskuldbindingar. “

Ergo: Það sem Eyjólfur Ármannsson á við með þessu og hefur komið fram víðar er að það er verið að ýta vandanum á undan sér. Það er verið að fresta, sem er nauðsynlegt, þessum innleiðingum án þess að setja við það almennilega fyrirvara eins og við erum búin að koma inn á í nokkrum ræðum.

Þetta hefði ég mjög gjarnan vilja ræða við báða þessa ungu hv. þingmenn sem komu hér í dag, en þau eru því miður ekki hér lengur. Ég vona (Forseti hringir.) að þau heyri orð mín og komi jafnvel til baka.