149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann drap á marga þætti málsins eins og eðlilegt er í svo víðfeðmu máli. Hann nefndi þar á meðal lagalegu fyrirvarana. Við stöndum núna frammi fyrir því að það getur verið að færast nær en okkur jafnvel óraði fyrir að hér verði lagður sæstrengur. Sá möguleiki er uppi að fyrirtæki sem stæði að slíkum sæstreng, eins og sú atburðarás er teiknuð upp í álitsgerð lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar, þeirra Friðriks Árna og Stefáns Más, myndi leita eftir samþykki Orkustofnunar og fengi það neikvætt svar myndi það leita til ESA og samningsbrotamál fylgdi í kjölfarið.

Þá er spurningin þessi: Hversu þungt myndi lagalegur fyrirvari hrökkva á móti þeirri þjóðréttarlegu skuldbindingu sem við öxlum með því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og innleiða, eins og sagt er að standi til að gera með hefðbundnum hætti, þær gerðir sem þar liggja undir, þar á meðal 713, í íslensk lög? Hvert er vægi lagalegs fyrirvara, sem sýnist eiga að vera athugasemd í innleiðingarreglugerð eða tiltekin grein, á móti þeirri þjóðréttarlegu skuldbindingu? Minnumst þess líka að það ber að túlka landsrétt til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar. Það er meginregla í lögfræði.