149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:34]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þingmaður nefndi virkjanir af smærra taginu, þ.e. allt að 10 MW, og vindorkuver, þá ætla ég að nota tækifærið og minna á fyrirspurn mína til hæstv. iðnaðarráðherra um fjölda umsókna um rannsóknarleyfi og fjölda umsókna um virkjunarleyfi og hversu margar heimildir hafa verið gefnar út af hálfu stofnunarinnar í því sambandi. Ég er þess fullviss að hæstv. iðnaðarráðherra eða fólk á hennar vegum fylgist með umræðunni og því vil ég nota þetta tækifæri og minna á þessa fyrirspurn í þeirri von að henni verði svarað við fyrstu hentugleika.

Ef við höldum aðeins áfram með það sem fór okkur hv. þingmanni á milli er staðan kannski sú að hér er kominn erlendur aðili, erlent fyrirtæki vopnað greinilega mikilli tækniþekkingu og sömuleiðis vopnað miklum fjárhagslegum styrk og hefur einn af fremstu fjárfestingarbönkum heims í sinni þjónustu. Miðað við álitsgerð Stefáns Más og Friðriks Árna gera þeir ráð fyrir því að umsókn fyrirtækis um tengingu væri beint til Orkustofnunar og það er væntanlega sá hluti Orkustofnunar sem er verið að gera sjálfstæðan núna og óháðan íslenskum stjórnvöldum og undanþeginn ráðherravaldi. En síðan er verið að setja einhvern fyrirvara um að slíkt kalli á samþykki Alþingis. Hvað vegur þá á móti þeirri skuldbindingu að hér eigi að vera innlendur aðili sem er (Forseti hringir.) sjálfstæður frá íslenskum stjórnvöldum sem fari með þessi mál?