149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það væri freistandi og auðvelt að segja: Mismunurinn á afstöðunni til þessara tveggja greina er hugsanlega óttinn við erlent vald. Hugsanlega. Við höfum stundum orðað það þannig í þessum umræðum að þetta sé stærsta milliríkjamál sem við höfum komist í tæri við síðan Icesave. Þetta er væntanlega miklu stærra. Það er kannski að uppistöðu til fólk úr sömu stjórnmálaflokkum sem dregur sömu lappirnar nú og þá. Ég myndi vilja líka svara þessu með því að vitna í viðtal við Friðrik Árna Friðriksson Hirst á mbl.is 10. apríl, eftir áréttingarbréfið, með leyfi forseta:

„Spurður hvort einhver fordæmi séu fyrir því að fara þá leið sem ríkisstjórnin hyggst fara segist Friðrik ekki þekkja nein dæmi þess í svipinn. Spurður hvort staða Íslands verði mögulega veikari eftir að hafa aflétt stjórnskipulegum fyrirvara þegar takast þarf á við álitamál varðandi stjórnarskrána segir hann:

„Vissulega erum við þá hugsanlega að gefa frá okkur þann möguleika að óska eftir undanþágum á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ég held að það liggi í sjálfu sér í hlutarins eðli að ef vilji stæði til þess á síðari tímapunkti þá eru þeir möguleikar afskaplega takmarkaðir þegar búið er að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum og staðfesta þessa ákvörðun.““

Þetta er akkúrat það sem við höfum verið að hamra hér á aftur og aftur og aftur án þess að nokkur virðist hlusta á það því miður vegna þess að það er svo mikið í húfi.