149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:47]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla í þessari ræðu að byrja aðeins á að tala um stjórnskipunarvandann. Í framhaldi af því — vonandi næ ég að klára það í þessari ræðu — ætla ég að tala um lagalega fyrirvarann.

Stjórnvöld kynntu málið á sínum tíma með trommuslætti um að það væri í góðu lagi að innleiða þriðja orkupakkann vegna þess að það yrði gert með lagalegum fyrirvara. Þá gerðist það að öll andstaða innan stjórnarflokkanna virtist hverfa eins og dögg fyrir sólu, en áður hafði verið svo megn andstaða að ekki virtist vera nokkur von til þess að stjórninni tækist að ná samstöðu um það í þingmannahópum stjórnarflokkanna. Þetta er sem sagt aðdragandinn.

Stjórnarliðar höfðu fyrir sér að lögfræðilegir ráðgjafar stjórnarinnar, Stefán Már Stefánsson prófessor og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, höfðu í sjö og hálfri línu, aftast í ítarlegu áliti sínu, bent á ákveðna lausn, eftir að hafa farið ítarlega yfir að tiltekin ákvæði í regluverkinu stæðust vart stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, eftir að þeir höfðu komist að þeirri niðurstöðu í ítarlegu áliti á 43 blaðsíðum.

Áður en við fjöllum frekar um lagalega fyrirvarann skulum við kanna varnaðarorð þeirra og álit á stjórnskipunarvandanum. Fræðimennirnir sögðu m.a. um 8. gr. reglugerðar 713/2009 sem mikið hefur verið fjallað um, en í reglugerðinni er lagður grunnur að orkumálastofnun Evrópu, ACER. Nú vitna ég, með leyfi forseta, beint í álitsgerðina:

„Verði þriðji orkupakkinn innleiddur hér á landi verður ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar falið vald til að taka ákvarðanir um skilyrði og skilmála fyrir aðgangi að grunnvirkjum yfir landamæri …“

Síðar er sagt um hverjar þær ákvarðanir gætu verið, með leyfi forseta:

„… hvernig flutningsgetu er úthlutað milli raforkufyrirtækja og notenda hér á landi.“

Síðan segja fræðimennirnir, með leyfi forseta:

„Verði 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 tekin upp í EES-samningsins og innleidd í íslenskan rétt í óbreyttri mynd mun reglugerðarákvæðið fela í sér framsal framkvæmdarvalds til ESA sem ella væri á hendi íslenskra stjórnvalda.“

Nokkru síðar segja þeir, með leyfi forseta:

„… og munu um leið varða hagsmuni mikilsverða raforkufyrirtækja og notenda raforkukerfisins beint og óbeint. ACER myndi einnig hafa umtalsverð áhrif á efni ákvarðana ESA.“ — Sem eru náttúrlega mikilsverð tíðindi.

Þá benda þeir á að umræddar ákvarðanir lúti að nýtingu takmarkaðrar auðlindar, þ.e. að mikilvægt sé að hafa það í huga að hérna sé takmörkuð auðlind. Í lokin segja þeir, með leyfi forseta:

„Ekki eru fordæmi fyrir slíku valdframsali til alþjóðlegra stofnana á grundvelli EES-samningsins.

Í ljósi eðlis og inntaks valdframsals til ESA, sem felst í 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009, telja höfundar vafa undirorpið hvort valdframsalið gangi lengra en rúmist innan ákvæða stjórnarskrárinnar …“

Undir lokin árétta höfundar „að Ísland hefur enn ekki tengst sameiginlegum raforkumarkaði ESB“ og því talið að ákvæði reglugerðarinnar hafi ekki raunhæfa þýðingu hér á landi.

Niðurstaða þeirra er, með leyfi forseta:

„Eftir sem áður telja höfundar ekki forsendur til að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn, nema tryggt sé að reglugerð nr. 713/2009 verði innleidd í íslenskan rétt á þann hátt að samræmist stjórnarskránni, …“

Og hvernig er það hægt, hvernig er hægt að innleiða hana svo hún samrýmist stjórnarskránni þegar þeir eru nýbúnir að segja að 8. gr. reglugerðarinnar brjóti í bága við hana? Hvernig er það hægt?

Þetta er svona einhvers konar ómöguleiki í mínum augum, herra forseti. Hvernig er unnt að innleiða reglugerðina á þann hátt að samrýmist stjórnarskránni ef komist hefur verið að niðurstöðu um að 8. gr. brjóti líklega í bága við hana? Hvernig er það hægt? Er unnt að fresta stjórnskipunarvandanum áður en innleiðing á sér stað? Þar á ég við hvort það sé í boði að láta sem svo að horft sé fram hjá því að reglurnar brjóti langlíklegast í bága við stjórnarskrá, en á meðan ekki reyni á þær sé unnt að loka augunum fyrir þessum vanda, loka bara augunum. Setja hann á bið á meðan ekki er um sæstreng að ræða.

Ég ætla að halda áfram með þetta, herra forseti.