149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:00]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið. Nei, ég hef ekki kannað upplýsingar frá Noregi, ef það var spurningin. Ég hef reyndar séð lauslega þýðingu á þeim fyrirvörum sem þar ku hafa verið settir við innleiðinguna. Hv. þingmaður upplýsti mig um að þeir væru í ágreiningi, skilst mér, fyrir stjórnlagadómstólnum í Noregi. Upplýsingar frá Noregi — ég tala sáralitla norsku, ég get bara vonað að aðrir hv. þingmenn taki sig til og beri þessa norsku fyrirvara saman við þá brotasögu sem ég er að vinna að. Þetta er auðvitað ekkert annað en brotasaga, það sem ég er að reyna að púsla saman. Ég er að reyna að púsla saman frásögnum hv. stjórnarþingmanna um hvar þessi lagalegi fyrirvari kann að vera. Ég flyt ykkur fréttir af því jafnóðum og mér berast nýjar upplýsingar og þigg allar leiðbeiningar í því. Ég vil samt ekki gegna því heiti að stjórna þessari rannsókn sérstaklega en ég mun sinna henni á meðan ég tel mér það skylt.

Auðvitað er þetta mikilvægt. Ef stjórnin leggur málið á borð þjóðarinnar, að þetta sé allt í lagi, þetta brjóti nú líklegast í bága við stjórnarskrá en settur verði lagalegur fyrirvari, og þá leggjast menn bara til svefns afskaplega ánægðir. Svo kemur upp úr dúrnum þegar farið er að ræða málið — sem betur fer höfum við rætt þetta mál hér — að þessi lagalegi fyrirvari er annaðhvort haldlítill, haldlaus, eða ekki til staðar.