149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:04]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir þessa spurningu. Ég er ekki viss um að ég hafi skilið það sem hv. þingmaður las hér upp úr svari hv. þm. Birgis Ármannssonar frá 15. maí sl. og myndi gjarnan vilja skoða það betur. Mér heyrðist vera lítið um svör. Bara sú staðreynd að það væri ekki sæstrengur, ef ég hef skilið upplesturinn rétt, er auðvitað enginn lagalegur fyrirvari.

Hvað er lagalegur fyrirvari? Er það einhvers staðar skýrt út? Já, í formálabók. En er það skýrt út í áliti Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts? Er það greint í þeirra áliti? Það eru sjö og hálf lína en 43 blaðsíður í heildina. Þú hefur lesið álitið meira en margir aðrir, hv. þingmaður. Er að finna útskýringu á því hvað nákvæmlega felist í lagalega fyrirvaranum? Ég minnist þess ekki að hafa séð það í því áliti.

Hvaðan er þá fyrirmyndin fengin? Er þetta eitthvað sem er poppað upp í stjórnarherberginu en ekki stutt með neinum lögfræðilegum álitum? Þar kem ég aftur að því sem hv. þingmaður hefur margoft spurt um í þessum þingsal að undanförnu: Er búið að rannsaka þessa leið sem var sjö og hálf lína í þeirra áliti? Engin svör hafa fengist við því. Þarna erum við kannski akkúrat komin að kjarna málsins. Engar djúpar rannsóknir liggja þarna á bak við og við erum strax lent á hraðahindrun. Hvar er lagalegi fyrirvarinn? Það eru fá svör.