149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:06]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og bara ítreka að ég treysti engum betur til að halda áfram leitinni og stjórna öllum aðgerðum varðandi leit og túlkun á þessum fyrirvara ef hann skyldi finnast. Það er kannski eitt atriði í þessu sem mig langaði að nefna við hv. þingmann og leita álits hans á og það er að í EES-samningnum finn ég hvergi hugtakið lagalegur fyrirvari þannig að ég átta mig ekki á honum. Þessi umbúnaður um innleiðingu á þeim gerðum sem fylgja þessum orkupakka á að gerast í krafti lagalegs fyrirvara en hugtakið lagalegur fyrirvari virðist ekki vera fyrir hendi í EES-samningnum.

Svo er annað hugtak í samningnum sem er undanþága. Það hugtak og orð hefur merkingu í EES-samningnum. Það er hægt að leita eftir undanþágu og það gerist á vettvangi þessarar nefndar sem kölluð er sameiginlega EES-nefndin og þá leitar hún eftir undanþágu og fáist hún er komin algjörlega ný réttarstaða varðandi innleiðingu vegna þess að þá er það ekki innleitt sem undanþágan fæst fyrir.

Síðan er ég með spurningu sem lýtur að því að hvaða ákvæði reglugerða hér á landi, þess vegna laga, myndu vega upp á móti þeirri þjóðréttarlegu skuldbindingu sem Ísland mun axla með því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og innleiða þessi ákvæði í ljósi þess, herra forseti, að sú meginregla er í heimi lögfræðinnar að þjóðréttarlegar skuldbindingar víkja til hliðar innlendum lagaákvæðum nema það fari í bága við stjórnarskrá eða öllu heldur er hin þjóðréttarlega skuldbinding yfirsterkari.