149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Hingað til í þessari umræðu sem nú hefur staðið í á sennilega sjöunda sólarhring — hæstv. forseti, er ég ekki örugglega í ræðu en ekki í andsvari? Út frá klukkunni að dæma.

(Forseti (SJS): Já, það hefur eitthvað misfarist, ég skal setja fimm mínútur.)

Takk fyrir. Í þeirri umræðu sem nú hefur staðið í námunda við sjö sólarhringa hef ég reynt að passa upp á að endurtaka mig ekki í ræðum en ég ætla að leyfa mér að gera það í þetta skiptið að hluta til vegna þess að það skiptir máli í ljósi nýrra upplýsinga sem fram hafa komið. Þær komu fram á fimmtudaginn í síðustu viku eftir að ráðherraráð Evrópuþingsins hafði afgreitt frá sér hinn svokallaða fjórða orkupakka.

Við fengum veður af þessu á fimmtudag, föstudag, og það er að kristallast í dag og í gær að nú er sú staða uppi í málinu sem gerir það að verkum að það er ekki hægt annað en að krefjast þess að fjórði orkupakkinn eins og hann liggur fyrir núna verði skoðaður. Eins og við þekkjum eru ein af kjarnarökunum sem notuð eru til að rökstyðja það að innleiða þriðja orkupakkann þau að fyrsti og annar orkupakkinn hafi verið innleiddir með slíkum bravör hér á Íslandi að það sé engin forsenda til annars en að hinn þriðji verði innleiddur sömuleiðis.

Af hverju vil ég taka þetta upp hérna? Það er í því samhengi að ég hef reglulega spurt spurningarinnar: Hvað liggur á, hver er asinn að keyra málið í gegn með þeim hætti sem lagt er upp með? Áður en upplýsingar komu um að fjórði orkupakkinn hefði verið afgreiddur frá ráðherraráðinu var mér fyrirmunað að skilja hvernig stuðningsmenn innleiðingar þriðja orkupakkans kæmust að þeirri niðurstöðu að það væri engin ástæða til þess að líta til þeirra nýju upplýsinga sem fram hafa komið og þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram á haldleysi fyrirvaranna svokölluðu, sem eru auðvitað kjarnaréttlæting fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn stökk um borð í þessa hripleku skútu sem innleiðingarferlið er.

Núna liggur fjórði orkupakkinn fyrir, við getum bara fengið hann sendan í tölvupósti, geri ég ráð fyrir. En að neita því að það sé ástæða til að leggjast yfir slíkt atriði fær mann til að upplifa málið allt þannig að stuðningsmönnum pakkans líði illa með málið og hugsi með sér: Illu er best af lokið. Það verði bara að leyfa þessu að klárast eins og það kemur fyrir. Það mun vissulega skvettast eitthvað á þingmenn þessara þriggja stjórnarflokka sem allir hafa kúvent í málinu frá því fyrir kosningar.

Eins og ég hef komið inn á áður hefur hæstv. iðnaðarráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir lýst því yfir að hún sjái ekkert því til fyrirstöðu að málið frestist fram á haustþing 2019. Þegar annar ráðherrann af þeim tveimur sem halda á málum sem tengjast hinum svokallaða þriðja orkupakka er þessarar skoðunar þá ætla ég að leyfa mér að segja að það þarf ekki frekari vitnanna við, það er enginn asi sem kallar á að málið verði klárað núna með þeim hætti sem lagt er upp með, og þá vísa ég til þess hvernig öll stýring málsins og fundarstjórn miðar að því að losna við málið af dagskrá með því að stýra fundum þannig að mælendaskrá tæmist og menn komist í atkvæðagreiðslu án þess að skoða þessa nýju hluti sem nú bætast við, hvorki meira né minna en fjórði orkupakkinn sjálfur sem er nú ekki lítið búið að nefna í umræðunni hingað til. Nú liggur hann fyrir. Það er ekkert því til fyrirstöðu að greina þá áhættu sem í honum liggur með tilliti til þriðja orkupakkans. Samt er sagt nei. Stuðningsmönnum málsins hlýtur að líða óskaplega illa með það eins og búið er um það í dag. Einu rökin sem ég get séð sem rökstyðja það að nálgast málið með þessum hætti eru þau að stuðningsmenn málsins telji að þeir verði í verri málum í haust hvað það varðar að koma málinu í gegn þegar ráðrúm hefur gefist til að ígrunda málið og skoða nýframkomin gögn.