149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:21]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir þetta svar. Já, þetta er mjög athyglisvert miðað við þessar fréttir og miðað við það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði hér fyrr í dag og hafði reyndar sagt áður, að honum fyndist skynsamlegast af þeim ástæðum sem hann tilgreindi að fresta málinu og taka umræðuna. Hann orðaði það reyndar þannig að það þyrfti að leiðrétta ýmislegt. Auðvitað þarf að leiðrétta ýmislegt. Ég held því fram að það þurfi að leiðrétta ýmislegt hjá stjórnarliðunum og taka umræðu um það og ekki síður áhyggjur þjóðarinnar. Það þarf að tala við þjóðina. Það þarf að upplýsa hana um þetta og það er einhver vinna sem þarf að fara í gegn. Ég hef verið fylgjandi því að þetta fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, a.m.k. þarf eftir að umræða hefði verið tekin og þjóðin upplýst með greinargóðum upplýsingum að vinna nýtt lögfræðiálit á grunni þessara sjö og hálfu línu sem allt málið byggist á. Það þarf að vinna lögfræðiálit um það nánar, t.d. með þennan lagalega fyrirvara. Hvar segir í álitinu hvernig þessi lagalegi fyrirvari á að líta út, herra forseti? Hvar segir það í álitinu? Ég hef ekki séð það. Hvers eðlis og hvers efnis á þessi lagalegi fyrirvari að vera? Eru einhverjar leiðbeiningar í áliti lögfræðinganna um það? Getur einhver svarað þessu? Hvar er það að finna? Er það að finna í bréfinu sem hann sendi hæstv. utanríkisráðherra? Eru í því skýringarbréfi nákvæmar leiðbeiningar um hvernig lagalegir fyrirvarinn eigi að vera? Nei, þær er ekki að finna þar og ekki í álitinu þó að það sé 43 blaðsíður.

Svo útbúa þeir þennan lagalega fyrirvara sem er haldlítill, haldlaus eða (Forseti hringir.) bara ófundinn.