149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:25]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður gerði fjórða orkupakkann að umtalsefni. Vissulega vekur það furðu að hann skuli í engu hafa verið nefndur af stjórnvöldum í samhengi við þriðja orkupakkann. Það var vitað að von væri á fjórða orkupakkanum og mér skilst að fólk úti í bæ, samtök og einstaklingar, hafi þegar fengið kynningu á hvað í honum fælist fyrir allnokkru síðan.

Svo gerist það núna á meðan á umræðu stendur að Evrópusambandið klárar að ganga frá þessum fjórða orkupakka. Þá skyldi maður ætla að stjórnvöld myndu vilja líta til þess hvað þar er að finna, sérstaklega í ljósi þess að þau rökstyðja orkupakka þrjú ekki hvað síst með tilvísun til þess að hann sé nauðsynlegt framhald af því sem á undan hafi gerst. Þau rök eru þá væntanlega notuð gegn sama fólki þegar fjórði orkupakkinn kemur til sögunnar. Ég vil samt draga það fram og heyra álit hv. þingmanns á því hvort það sé ekki svo miklu fleira sem kallar á að beðið sé með þetta mál fram á haust. Ég næ ég ekki að rekja það í þessu stutta andsvari.

Síðasta dæmið er grein í Sunday Times frá því í gær sem fjallar um væntanlegan sæstreng. Svo myndi ég vilja vita hvort hv. þingmaður hefur kynnt sér kröfur Evrópusambandsins og samningsbrotamál sem Evrópusambandið hefur farið í við a.m.k. 12 Evrópuríki vegna nýtingarréttar á virkjunarkostum. Jafnvel ríkisfyrirtæki, t.d. í Frakklandi, sem hefur í góðri trú verið að nýta í því tilviki vatnsaflsorku, held ég, stendur allt í einu frammi fyrir því að þurfa að fara í útboð á hinum opna markaði og ríkisfyrirtækið fyrir vikið gæti lent í því að missa nýtingarréttinn af þeirri náttúruauðlind.