149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Það er svo sem ekki óþekkt að því meiri upplýsingar sem komi fram, þeim mun verr lítist mönnum á samninga sem þeir gerðu. Þess vegna skilur fólk til dæmis eftir að hafa kynnst maka sínum örlítið betur eftir að til hjónabands var gengið.

Það er því skiljanlegt í þessu samhengi, ef við horfum bara á þau gögn sem við höfum skoðað, að mönnum líði þannig með málið akkúrat núna, stuðningsmönnum innleiðingarinnar, að þeir verði með einhverjum ráðum að komast frá málinu. Það verði best gert með því að sjá hvort Miðflokksmenn og -kona lyppist ekki niður á endanum.

Því meira sem kemur fram af nýjum upplýsingum, því fleiri fréttir sem berast að utan, hvort sem það er afgreiðsla fjórða orkupakkans frá ráðherraráðinu eða fréttir af lagningu sæstrengs sem menn vilja meina að sé fjármagnaður og þurfi ekkert annað en vink frá stjórnvöldum — svona hlutir eru auðvitað til þess gerðir að hrista úr mönnum allt sjálfstraust.

Ég hef oft upplifað stjórnarliða með meiri sannfæringu en núna. Ég verð að viðurkenna að ég upplifi ekki neinn sannfæringarkraft í neinum stjórnarliða, bara ekki neinum þeirra. Enda mæta þeir ekki í þingsal. Hv. þingmenn Pírata eru þeir einu sem hafa tekið þátt í umræðunni í dag. Þetta ber ekki vott um að menn telji sig hafa góðan málstað að verja. Allur undirbúningur er í skötulíki gagnvart því einmitt að verjast framtíðaráhættum.