149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Það er einmitt þessi frétt sem berst núna allt í einu sem eiginlega hlýtur að setja hlutina í samhengi, þ.e. að menn séu komnir með fullfjármagnaðan streng hingað, bíði eftir ákvörðun breskra stjórnvalda til að fá leyfi til að byrja að leggja hann en það kemur hvergi fram að þeir hafi neitt talað við íslensk stjórnvöld og virðast þvert á móti reikna með að hér sé hægt að tengja bara nánast umsvifalaust. Þetta þarf ekki að koma alveg á óvart vegna þess að við erum búin að heyra undanfarandi af mjög stórum áætlunum, sérstaklega um vindorku, reyndar á þeim svæðum landsins þar sem erfitt er að tengja vegna þess að línulögnin ber það ekki.

Að því sögðu kemur sem sagt þessi frétt um sæstrenginn ekki alveg í opna skjöldu af því að við höfum verið að tala um það hér undanfarna daga hvað valdi því að fyrirtæki og fjárfestar vilja byggja hér stór vindorkuver, fullt af smávirkjunum sem ekki standast samanburð í kostnaði við þá orku sem er verið að framleiða hér. Þá kom bara tvennt til greina, annaðhvort að selja orkuna á hærra verði en hefur verið gert hingað til eða selja hana á svæði sem þolir hærra verð. Það virðist vera það sem kemur á daginn núna, að það hangi væntanlega á spýtunni.

Mig langaði þess vegna til að spyrja hv. þingmann, af því að nú er í sjálfu sér ekki til sérlöggjöf um vindorkugarða á Íslandi eða vindorku yfir höfuð, hvort menn gætu í skjóli þess að lagasetningu skortir verið að reyna (Forseti hringir.) að koma hér upp vindorkuverum einn, tveir og þrír án þess að við fáum rönd við reist eða höfum skoðun á því.