149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:42]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég held að það hafi verið hv. þm. Jón Þór Þorvaldsson sem benti á að það að regluverk skorti varðandi orkumál eins og skortir hér á landi varðandi vindorkuna væri síður en svo hindrun hvað varðaði fjárfestingu heldur gæti jafnvel þvert á móti stundum orðið til þess að menn sæju tækifæri í því að ekki væru til staðar þær reglur sem gilda annars staðar og þess vegna sé hafið kapphlaup um byggingu og skipulagningu vindorkugarða.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, það virðist ekki ganga upp að ráðast í slíkar framkvæmdir til að selja inn á kerfið eins og eftirspurnin er núna og á því verði sem nú er í kerfinu. Orka framleidd með vindmyllum er mun dýrari í framleiðslu en orka framleidd til að mynda með vatnsaflsvirkjunum eða jarðvarmavirkjunum, enda er vindorkuframleiðsla í Evrópu gríðarlega mikið niðurgreidd af m.a. Evrópusambandinu og stjórnvöldum í hinum ýmsu Evrópulöndum. Þetta hefur verið gagnrýnt fyrir það að með þessu sé verið að ýta undir óhagkvæma orkuframleiðslu og um leið hækka verð. Hverjir greiða fyrir þessa ríkisstyrki fyrir vindmyllugarðana? Jú, það eru neytendur.

Það má ætla, til að mynda með hliðsjón af þeirri grein sem birtist í gær, að menn hugsi sér að fá stuðning að utan til að ráðast í slíka framkvæmd, sérstaklega auðvitað ef Ísland er orðið hluti af sameiginlegu raforkukerfi eða búið að taka upp þennan þriðja orkupakka, að þá sjái menn fyrir sér að komast í fjárhirslur Evrópusambandsins og fá styrki til þess að reisa vindorkugarða (Forseti hringir.) um allt land.