149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það má eiginlega segja að smátt og smátt rekist þessir endar allir upp sem við byrjuðum að eltast við hérna fyrir u.þ.b. viku og síðan hafa bæst við upplýsingar á hverjum einasta degi, eitthvert smotterí og sumt stórt, og bætist inn í þetta púsl í sífellu, að það virðist sem stjórnvöld séu vitandi vits. Framan af hélt maður kannski að þetta væri af því að menn hefðu ekki áttað sig á því t.d. hvað fyrirvararnir væru lélegir, að þeir myndu ekki halda og að þetta væri í sjálfu sér nokkurs konar óviljaverk, en nú er maður farinn að hallast að því að allt það sem er búið að vera að gerast og allt það sem stjórnvöld eru að gera til að reyna að innleiða þennan orkupakka sé gert af ásetningi, að menn gangi út í það með opin augun að þessir meintu fyrirvarar sem settir eru komi ekki til með að halda og að menn ætlist ekki til þess að þeir haldi, heldur ætlist menn til þess að þeir geti orðið til þess að innleiðingin verði með þeim hætti að þjóðréttarlegum fyrirvara er ýtt á undan sem verður síðan afnuminn um leið og sést í endann á sæstrengnum. Það Alþingi sem þá verður hér sitjandi, sem við vitum ekki hvernig verður samansett, stendur þá í sjálfu sér frammi fyrir gerðum hlut og verður að meðtaka strenginn.

Þetta er í sjálfu sér svolítið athyglisvert vegna þess að þegar við vorum upphaflega að hugsa um þetta mál vorum við ekkert að tala um sæstreng. Við vorum að tala um fjölþjóðlega apparatið o.s.frv. en ekki þetta. Nú kemur betur og betur í ljós að stjórnvöld eru bara komin miklu lengra (Forseti hringir.) en við héldum — eða hvað?