149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á það í ræðu fyrr í kvöld að markmiðin með þessum orkupökkum væru göfug. Evrópusambandið ætlaði sér að ná fram fjölda göfugra markmiða sem með einum eða öðrum hætti væru tengd inn í þessa orkupakka, aukið afhendingaröryggi og fleira slíkt var nefnt til sögunnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða hagsmunir séu líklegir til að vera í forgrunni þegar ákvörðun um slíka hluti er tekin, hvort það séu svæðisbundnir hagsmunir hvers lands eins og landamærin liggja í dag eða hvort hagsmunir orkustefnu Evrópusambandsins verði í forgrunni. Telur hv. þingmaður að við ákvarðanir í þeim deilumálum sem ACER kemur að lausn á verði litið til hagsmuna einstakra þjóðríkja eða hvort líkur séu til að við úrskurð verði horft fyrst og fremst til þess að stýra ákvörðunum þannig að hin eiginlegu markmið Evrópusambandsins nái fram að ganga?