149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:55]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Til að svara þessari spurningu er einfaldast að líta til reynslunnar, hvort sem það er á sviði orkumála — og ég hef nefnt ýmis dæmi um það hvaða stóra markmið Evrópusambandsins er ráðandi þegar hafa vaknað spurningar í þeim efnum — eða á sviði hins stóra forgangsatriðis Evrópusambandsins, sem er fjármálamarkaðurinn og peningamálin eða evran. Þar hafa heildarhagsmunir Evrópusambandsins eins og það er skilgreint af sambandinu sjálfu algjörlega ráðið för og oft á kostnað hagsmuna ákveðinna ríkja. Eitt skýrasta dæmið er auðvitað Grikkland, það er búin að vera algjör hörmungarsaga. Það er ágætt í samhengi við þessa orkuumræðu að bera saman orkumálin og peningamálin og stöðu Grikklands og Íslands eftir fjármálakrísuna. Viðbrögð Evrópusambandsins við skuldavanda Grikkja miðuðu öll að því að verja það sem sambandið leit á sem heildarhagsmuni ESB. Það birtist ekki hvað síst í því að grískur almenningur var látinn taka á sig skuldir langt umfram það sem skattgreiðendur munu nokkurn tímann geta greitt til baka. Þetta var gert til þess að leysa út evrópska banka, þýska banka ekki hvað síst, franska, ítalska. Grikkir sátu eftir með sárt ennið og gríðarlegan niðurskurð. Þetta er saga sem mætti rekja í löngu máli. Kannski næ ég að koma aðeins betur inn á þetta því að þetta er svo lýsandi fyrir forgangsröðunina í Evrópusambandinu.

Svarið er: Reynslan sýnir okkur að heildarhagsmunir Evrópusambandsins, eins og það skilgreinir þá, verða teknir fram yfir.