149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er komið inn á þetta í þeirri ágætu umsögn sem ég las upp úr áðan eftir Þórarin Einarsson. Hann segir, með leyfi forseta:

„Það er nokkur óvissa um hvort Alþingi geti haft geðþóttavald gagnvart því hvort og þá hverjir geti lagt sæstreng að landinu eftir innleiðingu þriðja orkupakkans. Lagasetning sem felur í sér þess háttar hindranir hljóta að teljast vafasamar og gerræðislegar viðskiptahindranir í ljósi EES-samningsins. Það er hæpið að treysta á að úrskurðir ESA og/eða EFTA-dómstólsins verði hliðhollir Íslandi ef upp koma kærumál þessu tengt.“

Þessi ágæti maður er sem sagt að taka nákvæmlega undir það sem aðrir hafa sagt.

Varðandi þessa stjórnskipulegu fyrirvara er ég aftur á móti farinn að hallast að því, eftir að við höfum rætt þetta mál nokkuð ítarlega, að þeir hafi verið í eðli sínu snuð til þess að stinga upp í óþæga þingmenn sem voru ragir við að játast þessum pakka. Þá fundu forystumenn ríkisstjórnarinnar upp þetta apparat, stjórnskipulega fyrirvara, og það var eins og við manninn mælt — og það hefur nú staðið upp úr nokkrum stjórnarþingmönnum, sérstaklega í fyrri umr., að þeir voru greinilega búnir að sjá ljósið um leið og þessir fyrirvarar voru komnir og sögðu: Ekkert mál. Nú er þetta bara komið. Og snerust á hæli og eru nú stuðningsmenn þessa orkupakka, hafa að eigin sögn verið yfirlýstir efasemdarmenn áður, en hafa kyngt þessu með sökku og öllu eftir að þessum fyrirvörum var veifað framan þá.

Fyrirvararnir eru hins vegar, eftir því sem við höfum rætt okkur niður á niðurstöðu, ekki túkalls virði. Þetta ferðalag er óvissuferð þar sem ríkisstjórnin er farin af stað með fjöregg þjóðarinnar í höndunum og það veit enginn hvar endastöðin er.