149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg séð fyrir mér þann möguleika að báðir aðilar muni sækja rétt sinn á hendur Íslendingum. Við erum búin að fá fréttir af sæstreng sem menn eru búnir að fjármagna í Bretlandi og eru núna að sækja um leyfi til breskra stjórnvalda til að leggja. Þar eru ævintýralegar upphæðir, bara í stofnkostnaðinum. Miðað við þann stofnkostnað ætla menn sér örugglega að fá gríðarlegar tekjur af því að reka strenginn og verði einhver hiksti á því vegna aðgerða eða aðgerðaleysis stjórnvalda á Íslandi þykir mér næsta víst að menn muni reyna að sækja rétt sinn út af því.

Ég er næstum viss um að ef menn fara í slík málaferli við íslensk stjórnvöld muni þeir njóta liðsinnis EFTA-dómstólsins vegna þess að fyrirvararnir eru ónýtir og menn munu telja að við höfum ekki innleitt eins og lög gera ráð fyrir.

Ég vona að ég nái að lesa um niðurstöðuna áður en tíminn er búinn, með leyfi forseta:

„Innleiðing þriðja orkupakkans skapar mikla óvissu og setur óþarfar kvaðir á nýtingu íslenskra orkuauðlinda. Það er þó áhættulaust að hafna innleiðingunni, enda er það eina rétta leiðin. Atkvæði greidd innleiðingu felur í raun í sér að viðkomandi vilji tryggja að íslenska raforkukerfið tengist raforkukerfi Evrópusambandsins strax svo ekki verði aftur snúið og varla hægt að skýra þá afstöðu með öðrum hætti en viðkomandi þjóni einhverjum duldum sérhagsmunum eða láti undan einhvers konar pólitískum þrýstingi. Slík afstaða er ábyrgðarlaus með öllu, þó afleiðingarnar kunni ekki að koma í ljós fyrr en að nokkrum árum liðnum.“

Svo mörg voru þau orð.