149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég hygg að það sé flestra manna mál að æskilegt sé að ákvarðanir séu teknar með upplýstum hætti. Hér er um að ræða mál sem er mjög víðfeðmt í eðli sínu og snertir mikilvæga hagsmuni þjóðarinnar.

Það er greinilegt að það er ákveðin ólga, miklar áhyggjur meðal landsmanna. Í Bændablaðinu birtist nýlega skoðanakönnun gerð af fyrirtæki sem kallast MMR og hún leiðir í ljós að meiri hluti landsmanna er andvígur því að þessu þriðji orkubálkur verði innleiddur, eins og það heitir, en felur í raun og sann í sér að þeim reglugerðum og tilskipunum sem honum fylgja verði veitt lagagildi á Íslandi, a.m.k. reglugerðunum.

Þetta mál snertir m.a. stjórnarskrá, alþjóðlegt samstarf og auðlindir þjóðarinnar. Er forsvaranlegt, herra forseti, að ljúka því með afgreiðslu ef ekki liggja fyrir raunhæfar og fullnægjandi upplýsingar um mikilvæga þætti þess?

Ég mun kannski leyfa mér að víkja að örfáum þáttum sem eru þannig vaxnir að sýnast ýmist órannsakaðir eða rannsakaðir með ófullnægjandi hætti. Í fyrsta lagi, svo litið sé á fréttir dagsins, er fyrirtæki í Bretlandi sem heitir Atlantic Superconnection eða eitthvað þvílíkt sem er greinilega langt komið með undirbúning, tæknilegan og fjárhagslegan, að því að leggja hingað sæstreng. Þetta mál er þannig vaxið að það vekur fjöldamargar spurningar og gegnir raunar furðu að ekki skuli hafa verið leitað til að mynda eftir upplýsingum um hugsanlegt samningsbrotamál sem væri tengt umsókn frá slíku fyrirtæki. Sá möguleiki er rakinn í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar að fyrirtæki í þessari stöðu sem myndi leita til Orkustofnunar eftir heimild til að koma á raforkutengingu gæti, eftir að hafa fengið synjun frá Orkustofnun, snúið sér til ESA, sem er Eftirlitsstofnun Evrópu, með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Höfundarnir Friðrik Árni og Stefán Már segja reyndar, með leyfi forseta: „Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“ Þeir eru kannski að gefa það með sínum hætti til kynna að þeir telji ekki miklar líkur á því að Ísland ætti möguleika á að vinna slíkt mál.

Þetta er eitt. Annað er að nú liggur fyrir 1.000 blaðsíðna skjalabunki, eftir því sem sagt er, sem kallaður er fjórði orkupakkinn. Hann var, eftir því sem fréttir herma, fullafgreiddur og staðfestur á vettvangi Evrópusambandsins í liðinni viku.

Það hafa ekki verið hafðir uppi neinir tilburðir til að kynna Alþingi þennan orkupakka, engin greining á samhengi hans við þriðja orkupakkann. Við erum því gangandi út í óvissu með að fara að samþykkja þennan orkupakka númer þrjú án þess að vita hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir okkur í ljósi orkupakka fjögur, sem gera verður ráð fyrir að við séum undir þungum þrýstingi um að samþykkja, hafandi samþykkt þriðja orkupakkann.

Og loks vil ég víkja að ákvörðun stjórnlagadómstóls í Noregi sem væntanleg er 23. september um tengsl orkupakka númer þrjú og norsku stjórnarskrárinnar. Ætlum við virkilega að afgreiða þetta mál (Forseti hringir.) án þess að þessi mál öll séu fullupplýst?